Hoppa yfir valmynd
20. maí 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands 2009

Ágætu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands

Það er mér sérstök ánægja að ávarpa ársfund Náttúrufræðistofnunar Íslands á 10. degi mínum í stóli umhverfisráðherra. Stofnunin er með elstu menningarstofnunum landsins og rekur rætur sínar aftur til upphafs Hins Íslenska Náttúrufræðifélags fyrir réttum 120 árum. Sú staðreynd minnir okkur á hversu gott það er að eiga stofnanir sem hvíla á gömlum merg á þeim umbrotatímum sem nú umlykja íslenskt samfélag.

Bankahrunið leiddi af sér pólitískt og samfélagslegt umrót: sem kemur við umhverfisráðuneytið eins og aðra hluta stjórnarráðsins. Ég er þriðji ráðherra umhverfismála á þessu ári. Þótt breytingar geti verið hollar þá er það ekki góð regla að umhverfisráðherrar tolli ekki lengur en kría á steini og ég vil fá að segja það hér, að ef ég fæ um það nokkru ráðið þá er ég komin til lengri vistar í umhverfisráðuneytinu en tíðkast hefur hin síðari ár.

Ný ríkisstjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar tekur við erfiðu búi og geigvænlegar skuldir þjóðarbúsins munu sníða okkur þröngan stakk á komandi mánuðum og misserum. Við blasir erfiður niðurskurður á fjárlögum, sem mun bitna á fjárveitingum til umhverfisráðuneytisins eins og til annarra ráðuneyta. Ég veit að stofnanir ráðuneytisins hafa þegar búið sig undir væntanlegan niðurskurð með tillögum um sparnað, hagræðingu og forgangsröðun en það er verkefni komandi mánaða að útfæra þær tillögur til að mæta þeirri kröfu sem til okkur verður gerð. Ennfremur eins og þið vitið þá hefur að undanförnu farið fram greining á möguleikum á samhæfingu og jafnvel samruna stofnana á vegum ráðuneytisins með aðkomu allra forstöðumanna stofnana ráðuneytisins og þátttöku starfsmanna. Ég vænti þess að fá skýrslu um þetta starf nú síðar í þessum mánuði og munum við þá skoða næstu skref í þeirri vinnu.

Á vettvangi ríkisstjórnarinnar hefur jafnframt verið rætt um skoðun á víðtækari samþættingu verkefna eftir atvikum þvert á núverandi ráðuneytaskipan. Ég á því frekar von á því að á næstu misserum gætum við með aðkomu starfsfólks og með hliðsjón af verkefnumunnið að miklum breytingum á stofnanabyggingu og fyrirkomulagi verkefna á næstu misserum. Þekking og reynsla starfsfólks og fagfólks á vettvangi stofnananna, hinna daglegu verka verður ávallt í öndvegi við slíkar ákvarðanir. Ég legg á það ríka áherslu á að allar slíkar breytingar verði hugsaðar með það fyrir augum að styrkja umhverfismálin í sessi, efla rannsóknir og miðlun þekkingarinnar og bæta þá þjónustu sem ráðuneytið og stofnanir þess veita.

Við megum ekki láta hugfallast við tímabundnar fjárhagsþrengingar. Framundan er mikið uppbyggingarstarf í íslensku þjóðfélagi.. Góðærið svokallaða var byggt að stórum hluta á sandi skammtímagróðahyggju og bókhaldsgaldra og sökk enda í kviksyndið þegar kallað var eftir reikningsskilum. Í endurreisn íslensks samfélags þurfum við að byggja á bjargi sjálfbærrar þróunar og draga græn gildi að hún. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að finna ítarlegan kafla um umhverfi og auðlindir, sem er metnaðarfyllsta stefnumörkun íslenskrar ríkisstjórnar á því sviði. Ég er afar stolt af því að eiga sæti í ríkisstjórn sem ætlar að brjóta blað í umhverfismálum.

Ég vil nefna hér nokkur atriði úr yfirlýsingunni, sem mér finnst eiga við á þessum vettvangi. Við ætlum að hefja náttúruvernd til vegs og styrkja stöðu hennar innan stjórnarráðsins til muna. Náttúruverndarlög verða endurskoðuð, verndarákvæði treyst og almannaréttur tryggður. Sérstaklega verður hugað að náttúruvernd strandsvæða og verndunar svæða í sjó. Þessi markmið munu fá byr í seglin strax á þessum fyrstu dögum Alþingis, en þar stefnum við að því að því að leggja fram að nýju náttúruverndaráætlun til 2013. Þar er staðfestur skýr vilji ríkisstjórnar og meirihluta þings að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að hið sérstæða votlendi þess njóti nauðsynlegrar verndunar sem barist hefur verið fyrir í áratugi. Hið sama á við Langasjó, sem mun bætast í hóp þeirra gersema sem stærsti þjóðgarður Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarður, býr yfir. Náttúruvernd á ekki að hugsa sem friðun skika sem ekki henta til orkuvinnslu eða annarra nota. Við skipulag landnýtingar á verndun lands að vera jafnrétthá öðrum notum, enda undirstaða atvinnusköpunar í ferðaþjónustu. En náttúra Íslands er svo miklu meira. Hún er kjarni í gildismati og vitund okkar sem þjóðar. Vernd hennar er framlag okkar til komandi kynslóða og skylda okkar í samfélagi þjóðanna.

Ríkisstjórnin hyggst staðfesta Landslagssáttmála Evrópu með það að markmiði að vernda landslagsheildir og ósnortin víðerni. Það skiptir miklu í náttúruvernd á Íslandi að efla þá vídd, því óbyggð víðerni er nær hvergi lengur að finna í vestanverðri Evrópu utan Íslands og norðanverðrar Skandinavíu.

Áhersla verður lögð á að efla og útfæra stefnu um líffræðilega fjölbreytni og vernd búsvæða tegunda. Þar væntum við liðsinnis Náttúrufræðistofnunar, sem fer með umsjón eins mikilvægasta alþjóðasamnings Íslendinga á sviði lífríkisverndar, Bernar-samningsins – og þá auðvitað sérstaks stuðnings af hálfu forseta samningsins, Jóns Gunnars Ottóssonar. Annar starfsmaður stofnunarinnar, Ævar Petersen, var nýverið kjörinn formaður starfshóps Norðurskautsráðsins um vernd lífríkisins og mun sem slíkur stýra viðamikilli úttekt á lífríki Norðurslóða, sem á m.a. að sýna áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfið.

Alþjóðlegt samstarf í umhverfismálum er mikilvægt, en það þarf að byggja á góðri heimavinnu. Náttúrufræðistofnun gegnir grundvallarhlutverki í náttúruvernd á Íslandi, sem sú stofnun sem lögum samkvæmt á að rannsaka, skrá og vakta helstu þætti íslenskrar náttúru. Hér á þessum ársfundi verður fjallað um mikilvæga þætti þess starfs, meðal annars um kortlagningu gróðurs og vistgerða. Við þurfum að byggja vernd og skynsamlega nýtingu auðlinda lands og sjávar á góðri vísindalegri þekkingu. Ég hlakka til að kynnast starfi stofnunarinnar betur og starfa með ykkur að þeim margvíslegu verkefnum sem við þurfum að vinna að á nýhöfnu kjörtímabili.

Við erum fámenn þjóð í stóru landi með fjölbreytta og á sumum sviðum einstaka náttúru til lands og sjávar og það skiptir miklu að nýta þá krafta sem við höfum til vísindastarfa og vöktunar sem best. Eins og ég nefndi í upphafi er nú í gangi skoðun á starfssviði umhverfisráðuneytisins og hvernig verkefnunum er fyrir komið með það að leiðarljósi að gera starf ráðuneytisins og stofnananna enn skilvirkara og markvissara. Ég tel það vera mjög af hinu góða og hlakka til að skoða þær tillögur sem komið hafa fram í þeim efnum, en í þeirri vinnu hefur bæði forstöðumönnum stofnana og öllu starfsfólki verið gefinn kostur að senda inn hugmyndir. Farsælar breytingar verða ekki unnar öðruvísi en í góðu samstarfi og samtali við fólkið sem störfin vinnur. Þar ber að hlusta á þá sem best til þekkja á hverju fagsviði fyrir sig og hafa reynslu af samvinnu milli stofnana eða samþættingu einstakra verkefna. Alla slíka vinnu þarf að vanda afar vel.

Þessi áform falla vel að fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um að koma á nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sem mun fá lykilhlutverk varðandi rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála. Það fer líka vel á því að halda Umhverfisþing í haust um sjálfbæra þróun í því ljósi; en með nýju ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála skapast ómetanlegt tækifæri til að móta heildstæða stefnu um sjálfbæra nýtingu auðlinda Íslands, bæði hinna hefðbundnu sem felast í fiskimiðunum, gróðri og jarðvegi og orkulindunum – og eins hinna sem felast í sérstæðri náttúru, víðernum og hreinu umhverfi.

Húsnæðismál Náttúrufræðistofnunar hafa verið, eins og þið þekkið öll mun betur en ég, okkur til nokkurs vansa um langt skeið. Mikilvægt skref til úrbóta í húsnæðismálum stofnunarinnar var stigið á sl. ári er skrifað var undir samning við Urriðaholt ehf. um byggingu og leigu á nýju húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands við Urriðaholtsstræti í Garðabæ. Vegna þeirra aðstæðna sem upp komu sl. haust frestuðust öll áform en ennþá er stefnt að því að stofnunin flytji inn í nýtt húsnæði fyrir lok næsta árs.

Ágætu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar,

Það eru erfiðir og krefjandi tímar framundan í íslensku þjóðarbúi, en það eru skapandi tímar í íslensku samfélagi. Loks er komið að því að umhverfismálin öðlist þann sess sem þessum mikilvæga málaflokki ber. Þannig verða verkefnin samhæfð betur, grundvöllur þeirra styrktur, þ.e. þjónustan, fræðslan og rannsóknirnar. Stofnanirnar jafnframt treystar og yfirsýn ráðuneytisins efld. Ég ítreka óskir mínar um gott samstarf á komandi árum og um liðsinni Náttúrufræðistofnunar og starfsfólks stofnunarinnar í því mikla hugmynda- og skipulagsstarfi sem er framundan. Ég geng glöð til þeirra verka með metnaðarfull áform nýrrar ríkisstjórnar að leiðarljósi. Saman munum við hrinda þeim í framkvæmd.

Takk fyrir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta