Utanríkisráðherra á fundi EES ráðsins í Brussel
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, tók í gær þátt í fundum EES ráðsins í Brussel en þar eru til umræðu mál er varða samskipti ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Utanríkisráðherra var í forsæti fyrir hönd EFTA ríkjanna, Íslands, Noregs og Liechtenstein.
Á fundinum var rætt um aðgerðir til að bregðast við efnahagsvandanum í heiminum, eflingu laga og reglugerðarumhverfis fjármálafyrirtækja en einnig önnur alþjóðamál, svo sem ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, í Afganistan og samskipti Evrópu og Bandaríkjanna.
Utanríkisráðherra fjallaði um stöðu efnahagsmála á Íslandi og hvernig þjóðin væri að vinna sig út úr vandanum. Fundir EES ráðsins eru haldnir tvisvar á ári í tengslum við utanríkisráðherrafund Evrópusambandsins.
Utanríkisráðherra átti í leiðinni fundi með fulltrúum í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og nokkrum evrópskum starfsbræðrum sínum, þar á meðal utanríkisráðherra Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og Noregs, þar sem meðal annars var fjallað um samþykkt ríkisstjórnarflokkanna um Evrópumál.