Hoppa yfir valmynd
22. maí 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á Degi líffræðilegrar fjölbreytni 2009

Góðir fundargestir,

Velkomin á þennan morgunverðarfund á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfisráðuneytisins á Degi líffræðilegrar fjölbreytni.  22. maí er tileinkaður vernd lífríkisins af Sameinuðu þjóðunum í tilefni þess að þann dag var gengið frá samþykkt texta Samningsins um líffræðilega fjölbreytni, sem er sá alþjóðlegi rammi sem ríki heims vinna innan í viðleitni sinni við að vernda lífríkið og tryggja sjálfbæra nýtingu þess.  Þema dagsins í ár er “ágengar framandi tegundir” og hér á eftir verða flutt fróðleg erindi um slíkar tegundir hér á landi – og ekki bara á landi, heldur líka í sjó, því framandi tegundir geta tekið sér far með kjölfestuvatni skipa og flust þannig milli heimshafa.

Samkvæmt Samningnum um líffræðilega fjölbreytni og áherslum í framkvæmd hans, eru ágengar framandi tegundir ein af alvarlegustu ógnum við markmið samningsins. Um víða veröld er fjöldi þekktra dæmi um skaðsemi ágengra framandi tegunda og árlega er varið miklum fjármunum í baráttuna gegn skaðvöldum úr þeirra hópi. Við þekkjum öll baráttuna við minkinn og spánarsnigill er dæmi um nýjan innflytjanda sem er garðeigendum og fleirum til ama. Lúpína og skógarkerfill eru víða ágeng við íslensk gróðursamfélög, þótt fyrrnefnda plantan hafi verið flutt hingað í því skyni að græða upp auðnir en ekki til að keppa við innlendan gróður. Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni veitir leiðsögn um hvernig ríkjum beri að stemma stigu við innflutningi á ágengum framandi tegundum, hafa stjórn á uppgangi þeirra eða uppræta þær. Einnig er unnið að þessum málum svæðisbundið og má þar nefna samstarfsverkefni Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, NOBANIS, sem lýtur að kortlagningu ágengra tegunda og Ísland hefur tekið þátt í.

Hér á landi er m.a. að finna leiðsögn í stefnumörkun Íslands um líffræðilega fjölbreytni, sem samþykkt var af ríkisstjórn á síðasta ári. Þar segir m.a. að kortleggja beri helstu innflutningsleiðir framandi tegunda til landsins og hugsanlegar ógnir af þeirra völdum, yfirfara og samræma lög og reglugerðir um innflutning, dreifingu og ræktun tegunda sem gætu skaðað líffræðilega fjölbreytni landsins og herða eftirlit með því að þeim sé framfylgt. Einnig á að efla samráð stofnana á sviði ræktunar og náttúruverndar um aðferðarfræði við jarðrækt, skógrækt og landgræðslu, m.a. í því skyni að auka vægi innlendra tegunda. Varðandi hafið, þá á að setja reglur um losun kjölfestuvatns frá öðrum hafsvæðum til að takmarka hættu á að framandi lífverur berist inn á íslensk hafsvæði.

Ég hef ekki verið lengi á stóli umhverfisráðherra, en það verður eitt af verkefnum mínum að hrinda góðum áformum í þessari stefnumörkun í framkvæmd, ekki bara hvað viðvíkur ágengum framandi tegundum, heldur öðrum ákvæðum stefnumörkunarinnar líka. Strax á næsta ári eigum við Íslendinga eins og aðrar þjóðir heims að hafa náð því markmiði að hafa stöðvað eyðingu líffræðilegrar fjölbreytni og tryggt verndun hennar m.a. í neti verndarsvæða. Það er stórt markmið og erfitt að meta hversu vel okkur hefur tekist að ná því, ekki síst þegar haft er í huga að við höfum ekki náð að kortleggja náttúru landsins eins vel og flest nágrannaríki okkar. En alþjóðleg markmið af þessu tagi eru okkur brýning um að bæta okkur, hvað varðar rannsóknir og vöktun á lífríkinu, verndun þess og sjálfbæra nýtingu og viðbrögð við ógnum, hvort sem þær stafa af ágengum framandi tegundum eða öðrum orsökum.

Það eru erfiðir tímar nú í íslensku samfélagi og við höfum ekki séð fyrir endann á þeim erfiðleikum, sem munu sníða stjórnvöldum þröngan stakk á komandi misserum. En við höfum þegar hafið endurreisn og í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar eru skýr og metnaðarfull markmið um að efla veg náttúruverndar og umhverfismála. Ég hef því fullt umboð til að stýra metnaðarfullu starfi í umhverfisráðuneytinu, en það starf er að sjálfsögðu unnið af fjölda manns í ráðuneytinu og stofnunum þess og það þarf að byggja á þekkingu og fagmennsku. Við munum fá gott yfirlit yfir þema þessa dags nú í erindum sérfræðinga, sem spanna landið og miðin og lífkeðjuna. Það er gagnlegt veganesti fyrir framkvæmd stefnumótunar um líffræðilega fjölbreytni hvað varðar ágengar framandi tegundir. Ég vil þakka Náttúrufræðistofnun og fyrirlesurum fyrir þetta framtak og þennan fund og óska þeim og okkur öllum til hamingju með Dag líffræðilegrar fjölbreytni.

 

Takk fyrir,



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta