Hoppa yfir valmynd
26. maí 2009 Utanríkisráðuneytið

Stoltenberg ræðir norrænt samstarf í utanríkis- og öryggismálum

Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs, mun ræða norrænt samstarf í utanríkis- og öryggismálum á opnum fundi sem utanríkisráðuneytið, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og norska sendiráðið standa að. Fundurinn verður haldinn í hátíðasal Háskóla Íslands á morgun, miðvikudag, og hefst kl. 12:15.

Koma Stoltenbergs hingað til lands er í framhaldi skýrslu sem hann vann fyrir norræna utanríkisráðherra fyrr á árinu og kynnt var í byrjun febrúar. Í skýrslunni er horft til næstu 10-15 ára og gerðar tillögur um nánara samstarf Norðurlandanna, m.a. varðandi friðaruppbyggingu og friðarumleitanir, loftrýmis- og landhelgisgæslu, öryggismál á Norðurslóðum, tölvuöryggi, samnýtingu og samvinnu í rekstri sendiráða og samvinnu á sviði varnarmála.

Unnið er að því að útfæra tillögur Stoltenbergs nánar og verða þær ræddar á næsta fundi ráðherranna, sem haldinn verður á Íslandi í júní.

Á meðan dvöl hans stendur mun Stoltenberg hitta utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, utanríkismálanefnd Alþingis og forseta Alþingis.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta