Hoppa yfir valmynd
27. maí 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Miklir möguleikar á sviði umhverfisbótaverkefna

Magnús Jóhannesson á kynningarfundi NEFCO og NOPEF
Kynningarfundur NEFCO og NOPEF

Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO) og norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (NOPEF) kynntu starfsemi sína á morgunverðarfundi á Grand Hótel í morgun. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, tók nýverið við formennsku í stjórn NEFCO.

Á fundinum kynnti Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP-banka starfsemi Lviv banka í Úkraínu, sem er að stærstum hluta í eigu Íslendinga, og samstarfsverkefni bankans og NEFCO að umhverfisbótum í Úkraínu. Í erindi Margeirs komu fram ábendingar um mikla möguleika á verkefnum á þessu sviði í Úkraínu.

NEFCO er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu ríkisstjórna Norðurlandanna. Meginmarkmið stofnunarinnar er að fjármagna hagkvæm verkefni á grannsvæðum Norðurlandanna í Austur-Evrópu, Rússlandi og Úkraínu. Verkefni sem NEFCO styrkir eiga að miða að því að minnka umhverfisáhrif, t.d. við öflun og nýtingu orku, í iðnaði og við meðhöndlun úrgangs.

Ársuppgjör NEFCO fyrir starfsemi ársins 2008 sýnir ágætan árangur, þrátt fyrir alþjóðlegu fjármálakreppuna. Þau 64 verkefni sem samþykkt voru árið 2008 eru til dæmis fjármögnun endurnýjanlegrar orku, hækkun á nýtingarhlutfalli orku, fjármögnun tækninýjunga í framleiðsluiðnaði, sjálfbær landbúnaður og fjármögnun á endurvinnslu úrgangs ásamt hreinsun á frárennslisvatni.

Minnkun koltvísýrings í þeim verkefnum sem NEFCO fjármagnaði að hluta í fyrra, nam tæplega 1,5 miljón tonna, sem samsvarar tæplega 90% af losun koltvísýrings frá umferð ökutækja á Íslandi árið 2006. Þær fjárfestingar sem voru til stuðnings endurnýjanlegrar orku eða til bættrar orkunýtingar, minnkuðu orkunotkunina um 1.281.087 megawatttíma, sem samsvarar rafmagnsnotkun um 43.000 Íslendinga árið 2007.

Heimasíða NEFCO.

Ársskýrsla NEFCO 2008.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta