Hoppa yfir valmynd
28. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þjóðhagsstærðir og vinnuafl

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 28. maí 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Könnun á samhengi þjóðhagsstærða og vinnuaflsnotkunar einstakra atvinnugreina sem birt var í rammagrein 6 í Þjóðarbúskapnum - vorskýrslu 2009 leiðir í ljós að hægt er að notast við þær fyrrnefndu við mat á breytingum vinnuafls í sumum greinum.

Gerð hefur verið athugun á sambandi einkaneyslu og vinnuaflsnotkunar í þeim greinum sem helst tengjast henni og er niðurstaðan sýnd á meðfylgjandi mynd. Einkaneysla er samsett úr neyslu íslenskra heimila hér á landi og erlendis en að sjálfsögðu hefur neysla Íslendinga erlendis engin áhrif á eftirspurn eftir vinnuafli hér á landi.

Á sama hátt telst neysla erlendra ferðamanna hér á landi ekki til einkaneyslunnar heldur til útflutnings á vöru og þjónustu. Sú neysla hefur hins vegar áhrif á vinnumarkaðinn í sömu greinum og tengjast einkaneyslunni mest. Sá hluti einkaneyslu Íslendinga sem fór fram erlendis árið 2008 nam 10,7% af allri einkaneyslu á meðan útgjöld erlendra manna hér á landi voru 7,1% einkaneysluútgjalda það ár. Í þjóðhagsreikningum eru útgjöld erlendra ferðamanna á Íslandi dregin frá einkaneysluuppgjöri sem óskiptur liður og færð til tekna í utanríkisviðskiptum.

Ársbreytingar

Það samband sem myndin sýnir er að ef einkaneysla breytist um 1% breytist vinnuaflsnotkun í einkaneyslugreinunum um 0,62%. Þótt sambandið mætti vera sterkara er hægt að spá fyrir um breytingu á vinnuafli í þessum greinum út frá áætlaðri breytingu á einkaneyslu.

Í því samhengi þarf einnig að athuga áhrif ýmissa annarra mögulegra skýringarþátta, sem geta verið breytilegir. Má þar nefna framleiðni, en hún er oft breytileg þegar efnahagslífið skiptir um gír, þar sem mælt vinnsluvirði (eða annar mælikvarði á framlag til landsframleiðslu) og vinnumagn breytast umtalsvert en ekki endilega samtímis. Miðað við hið mælda tölfræðisamband má því reikna með að vinnuaflsnotkun einkaneyslugreinanna dragist saman um 15% sem jafngildir því að störfum fækki um 10.000 til 11.000 manns árið 2009. Reikna má með að stór hluti af þeim samdrætti sé nú þegar kominn fram.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta