14. ráðstefna fjármálaráðherra Norðurlanda og ríkja við Eystrasalt
Þátttakendur á 14. ráðstefnu fjármálaráðherra Norðurlanda og ríkja við Eystrasalt 27. maí 2009 í Mariefred, Svíþjóð.
Fjármálaráðherrar Norðurlanda og ríkja við Eystrasalt – Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Þýskalands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs, Póllands, Rússlands og Svíþjóðar - hittust á 14. ráðstefnu ríkjanna þann 27. maí 2009 í Mariefred, Svíþjóð. Ráðstefna var haldinn í boði Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, sem einnig var fundarstjóri. Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri, var fulltrúi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á fundinum, sem gat ekki tekið þátt vegna anna.
Ráðherrar ræddu fjármálakreppuna og þá erfiðleika sem löndin eiga við að etja um þessar mundir. Ráðherrar voru sammála um að þörf væri á að auka samstarf á alþjóðavísu til að tryggja skilvirk viðbrögð við ástandinu. Víðtæk samstaða var meðal ráðherra um að Larosière skýrslan væri mikilvægt innlegg í þá viðleitni að styrkja eftirlit með starfsemi fjármálamarkaða heima fyrir og yfir landamæri, bæði innan ESB og alþjóðlega.
Varðandi loftslagsmál, staðfestu ráðherrar vilja sinn til að undirbúa alþjóðlegan loftslagssáttmála fyrir ráðstefnu í Kaupmannahöfn í desember næstkomandi. Stefnt verði að því að draga verulega úr losun koltvísýrings á komandi áratugum.