Bílaklúbbur Akureyrar undirbýr ökugerði
Bílaklúbbur Akureyrar er að hefja framkvæmdir við akstursíþróttasvæði og ökugerði. Kristján L. Möller samgönguráðherra tók ásamt fleirum fyrstu skóflustungurnar fyrir framkvæmdirnar í gær.
Æfingasvæðið er við Hlíðarfjallsveg rétt ofan Akureyrar og er gert ráð fyrir að það verði tilbúið eftir um það bil ár. Skóflustungurnar í gær tóku þeir Kristján L. Möller samgönguráðherra, Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs Akureyrar, og Kristján Þ. Kristinsson, formaður Bílaklúbbs Akureyrar og var fjölmenni viðstatt athöfnina. Jarðvegsframkvæmdir hófust strax í kjölfarið með stórvirkum vinnuvélum.
Akureyrarbær úthlutaði félaginu þessu svæði fyrir akstursíþróttasvæði og ökugerði og er gert ráð fyrir því að hluti þess verði kominn í rekstrarhæft form að ári liðnu. Bílaklúbbur Akureyrar fagnar nú 35 ára afmæli sínu.
Í ávarpi við athöfnina fagnaði samgönguráðherra þessu framtaki Bílaklúbbsins og sagði það tvímælaust lið í auknu umferðaröryggi og í sama streng tóku aðrir sem fluttu ávörp. Að athöfn lokinni bauð klúbburinn í afmæliskaffi í húsakynnum sínum.