Embætti forstjóra Útlendingastofnunar laust til setningar í sex mánuði
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið auglýsir nú embætti forstjóra Útlendingastofnunar laust til setningar í hálft ár. Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra setur í embættið frá og með 1. júlí 2009, til og með 31. desember 2009, vegna framlengds leyfis Hildar Dungal forstjóra til næstu áramóta.
Haukur Guðmundsson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem settur var forstjóri Útlendingastofnunar í eitt ár, frá 1. júní 2008 til 31. maí 2009, kemur samkvæmt ósk ráðherra til starfa í ráðuneytinu á ný til að veita forstöðu dómsmála- og löggæsluskrifstofu ráðuneytisins á meðan á setningu Þórunnar J. Hafstein sem ráðuneytisstjóra stendur.
Áskilið er að forstjóri Útlendingastofnunar hafi embættispróf í lögfræði sbr. 3. mgr. 3. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og hann uppfylli skilyrði 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Umsóknir berist dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Skuggasundi 3, 101 Reykjavík eigi síðar en 16. júní nk. Nánari upplýsingar veitir Þórunn J. Hafstein, settur ráðuneytisstjóri, í síma 545-9000.
Auglýsing um embættið á Starfatorgi