Fréttatilkynning sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku
Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, (AGS), undir forystu Marks Flanagan dvaldi á Íslandi 19. – 28. maí til að halda áfram viðræðum um fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda. Hún er hluti 2,1 milljarða dala fjárhagslegrar fyrirgreiðslu sjóðsins sem samþykkt var 19. nóvember sl. Sendinefndin átti árangursríka fundi með háttsettum embættismönnum, háskólamönnum, fulltrúum atvinnulífsins og verkalýðsfélaga. Í lok heimsóknar sendinefndarinnar sendi Mark Flanagan frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
,,Markverður árangur hefur náðst í þeim viðræðum sem þarf til að ljúka fyrstu endurskoðun samkomulagins. Vegna seinkunar á áætluninni beindist athyglin að því að koma til framkvæmda ,eins skjótt og auðið er, lykilaatriðum í endurskipulagningu bankakerfisins og ríkisfjármála. Sendinefndin og íslensk stjórnvöld hafa orðið ásátt um að með þrautseigju sé hægt að ljúka því sem eftir stendur fyrir lok júní. Það myndi þýða að hægt væri að flýta athugun stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á endurskoðaðri áætlun og að hún færi fram um miðjan júlí.
Sendinefndin telur að horfur í efnahagsmálum séu í grófum dráttum svipaðar og gert var ráð fyrir í áætluninni. Botn hagsveiflunnar ætti að nást á síðari hluta þessa árs og hagvöxtur að glæðast strax næsta ári. Með ströngu aðhaldi í peningamálum ættu markmið um bæði stöðugleika gengis krónunnar og verðbólgu í lok árs að vera raunhæf.
Nú sem fyrr er það lykilatriði í áætluninni að afnema gjaldeyrishöftin eins fljótt og hægt er á þann hátt að það samræmist stöðugu gengi krónunnar. Þetta ferli ætti að geta hafist síðar á þessu ári en skref verður að stíga í áföngum. Höftunum ætti að beita í millitíðinni en þar sem ætíð finnast leiðir til að komast hjá þeim, mun það krefjast mjög ákveðinnar peningastefnu að viðhalda gengisstöðugleika. Stöðugt gengi krónunnar er mjög mikilvægt vegna þess hversu berskjaldaðir efnahagsreikningar eru fyrir sveiflum.
Sendinefndin fagnar áætlunum íslenskra stjórnvalda um að koma á fót sem fyrst starfhæfu bankakerfi. Það mun verða til að styrkja enn frekar viðsnúning hagkerfisins. Nú þegar lokið er eignamati nýju bankanna er mikilvægt að viðræður við erlenda lánveitendur gömlu bankanna og endurfjármögnun þeirra nýju hefjist þegar í stað. Endurskipulagning á rekstri bankanna og markvissar aðgerðir til endurskipulagningar skulda heimila og fyrirtækja má vinna jöfnum höndum en mun taka lengri tíma.
Sendinefndin fagnar líka hugmyndum ríkisstjórnarinnar um endurskipulagningu ríkisfjármálanna. Mikill halli á fjárlögum er nú nýttur til að milda áhrif niðursveiflunnar í hagkerfinu en hann má ekki verða viðvarandi. Breyting á þessu gæti leitt til betra jafnvægis. Það er mjög mikilvægt að ná sameiginlegri niðurstöðu um nauðsynlegar breytingar í ríkisfjármálum og að tryggja að byrðunum sem þær breytingar skapa verði dreift á sanngjarnan hátt."
Sjá einnig: