Mat fjármálaráðuneytisins á áhrifum skattbreytinga
Fréttatilkynning nr. 30/2009
Í umræðum um frumvarp fjármálaráðherra til laga um breytingar á ýmsum vörugjöldum í gær komu fram spurningar um það með hvaða hætti fjármálaráðuneytið metur áhrif einstakra skattbreytinga á tekjur ríkissjóðs. Því er rétt að gera nokkra grein fyrir því með hvaða hætti ráðuneytið metur áhrif einstakra skattbreytinga.
Þegar um er að ræða breytingar á beinum sköttum, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar, er metið hversu mikilli hækkun eða lækkun á tekjum af óbeinum sköttum megi búast við í kjölfarið. Þar er byggt á reynslu og mælingum sem gerðar hafa verið.
Við breytingar á óbeinum sköttum er metið hvaða áhrif verðhækkun eða verðlækkun vegna skattbreytinga er talin muni hafa á eftirspurn. Þar er m.a. byggt á fyrirliggjandi verðteygnimælingum sem segir til um áhrif verð¬breytinga á eftirspurn eftir vöru eða þjónustu.
Að því er varðar almenn efnahagsleg áhrif er í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins tekið fullt tillit til þeirra skattbreytinga sem nú er verið að ákveða. Þannig er gert ráð fyrir aðgerðum til að minnka halla á rekstri ríkissjóðs samkvæmt aðgerðaáætlun fjármálaráðuneytisins í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í forsendum spárinnar er gert ráð fyrir að aðgerðir séu bæði á tekju- og gjaldahlið. Í útreikningum ráðuneytisins er þannig búið að taka tillit til þeirra aðgerða sem til umfjöllunar voru í gær, og annarra sem eftir er að leggja fram, bæði til að auka tekjur ríkissjóðs og draga úr útgjöldum. Aðgerðirnar raska því ekki forsendum um ráðstöfunartekjur heimilanna eða verðbólguspá svo dæmi séu nefnd.
Lögð er áhersla á að mat á áhrifum skattabreytinga sé raunhæft með því að byggja á bestu aðferðum og vinna út frá raunhæfum forsendum. Þó verður ekki umflúið að áhrif skattabreytinga eru almennt óvissu háð og á það ekki síst við um núverandi aðstæður.
Fjármálaráðuneytinu, 29. maí 2009