Hoppa yfir valmynd
29. maí 2009 Forsætisráðuneytið

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lýkur fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) undir stjórn Mark Flanagans hefur í samstarfi við íslensk stjórnvöld nær lokið fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda vegna lánafyrirgreiðslu sjóðsins. Sendinefndin hefur einnig átt fundi með þingmönnum, aðilum vinnumarkaðarins, háskólasamfélaginu og ýmsum hagsmunaaðilum til þess að kynna sér þróun íslensks efnahagslífs og framtíðarhorfur. Samkvæmt samkomulagi sjóðsins og stjórnvalda frá því í nóvember ber sjóðnum að meta framgang áætlunarinnar og horfur ársfjórðungslega. Matið myndar grunn að lánveitingum sjóðsins til Íslands. Forsendur áætlunarinnar eru jafnframt uppfærðar í ljósi þróunar efnahagsmála, bæði hér á landi og alþjóðamörkuðum.

Áætlun stjórnvalda miðar sem fyrr að því að endurreisa bankakerfi á næstu vikum sem geti veitt íslenskum fyrirtækjum og almenningi kröftuga þjónustu, bæta afkomu ríkissjóðs svo afgangur verði árið 2013 og tryggja stöðugleika krónunnar.

Íslensk stjórnvöld munu á næstu vikum senda framkvæmdastjórn sjóðsins uppfærða viljayfirlýsingu (e. Letter of Intent), líkt og gert er í lok hverrar endurskoðunar. Yfirlýsingin lýsir helstu verkefnum og áætlunum stjórnvalda næstu mánuði. Hún byggir á þeim grunni sem lagður var í upphafi samstarfsins í nóvember, en finna má upphaflega viljayfirlýsingu stjórnvalda og viðkomandi gögn á heimasíðunni www.island.is.

Búist er við að framkvæmdastjórn sjóðsins taki afstöðu til yfirlýsingarinnar í júlímánuði. Í kjölfar þess mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veita annan hluta láns hans til styrkingar gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Fyrirhuguð heildarlánveiting AGS til Íslands nemur 2,1 milljarði Bandaríkjadala. Þegar hafa verið greiddar um 830 milljónir dala inn á reikning Seðlabanka Íslands hjá seðlabanka Bandaríkjanna. Að lokinni samþykkt stjórnar sjóðsins verður viljayfirlýsingin ásamt greinargerð sendinefndarinnar gerð opinber.


Reykjavík 29. maí 2009


Sjá einnig fréttatilkynningu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta