Breytingar á yfirstjórn ráðuneytisins
Bolli Þór Bollason skipaður ráðuneytisstjóri
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, skipaði í dag Bolla Þór Bollason, hagfræðing, ráðuneytisstjóra í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Bolli Þór var áður ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og er skipaður ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu með vísan til 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um flutning embættismanna ríkisins milli starfa.
Bolli Þór Bollason er fæddur í Reykjavík árið 1947. Hann lauk námi í þjóðhagfræði við háskólana í Manchester og Kaupmannahöfn. Hann var hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun frá árinu 1975 en var skipaður skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins árið 1987.
Anna Sigrún Baldursdóttir ráðin aðstoðarmaður ráðherra
Félags- og tryggingamálaráðherra hefur ráðið Önnu Sigrúnu Baldursdóttur aðstoðarmann sinn. Anna Sigrún hefur starfað á Landspítalanum við fjármálráðgjöf frá árinu 2007. Áður starfaði hún við eigin rekstur á sviði heilbrigðisþjónustu, meðal annars öldrunarþjónustu. Anna Sigrún bjó í Stokkhólmi um nokkurra ára skeið og starfaði einnig þar við heilbrigðisþjónustu jafnt í einkarekstri og hjá ríkisstofnunum.
Anna Sigrún lauk hjúkrunarfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1995 og MBA prófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007.