Skipað í embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu
Forsætisráðherra hefur skipað Ragnhildi Arnljótsdóttur ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu frá 1. júní 2009 til fimm ára með vísan til 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um flutning embættismanna ríkisins milli starfa. Félags- og tryggingamálaráðherra hefur frá sama tíma skipað Bolla Þór Bollason, sem áður gegndi embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, í embætti ráðuneytisstjóra í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
Ragnhildur er fædd á Húsavík 20. júní árið 1961. Hún útskrifaðist sem lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1991. Ragnhildur gegndi embætti ráðuneytisstjóra í félags- og tryggingamálaráðuneytinu frá árinu 2004 og var sett ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu frá 1. febrúar 2009. Hún starfaði áður í nefndadeild Alþingis og í heilbrigðisráðuneytinu og var fulltrúi félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel.
Í Reykjavík, 3. júní 2009.