Hoppa yfir valmynd
3. júní 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýr skilaboð - Ísland ætlar að draga úr losun til 2020

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
Svandís Svavarsdóttir

,,Í Kýótó var erindi Íslands einkum að biðja um undanþágur frá reglum bókunarinnar. Í Kaupmannahöfn mun Ísland ganga til liðs við þau ríki sem ætla sér að vera í framvarðasveit í baráttunni gegn loftslagsbreytingum". Þetta er meðal þess sem segir í grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um loftslagsmál í Morgunblaðinu í gær.

Hér má lesa greinina í heild sinni:

Loftslagsbreytingar vegna sívaxandi útstreymis gróðurhúsalofttegunda er stærsta ógnin sem steðjar að lífríki jarðar. Alþjóðasamfélagið verður að lyfta sameiginlegu Grettistaki og sá tími sem við höfum til ráðstöfunar er skammur. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að samningar takist á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn nú í desember.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að Ísland ætli að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 15% til 2020, miðað við árið 1990. Fulltrúar Íslands munu tilkynna þetta í alþjóðlegum samningaviðræðum um loftslagsmál, sem miða að því að ganga frá nýju samkomulagi í Kaupmannahöfn í desember á þessu ári. Með yfirlýsingunni gefa íslensk stjórnvöld í fyrsta sinn til kynna á alþjóðlegum vettvangi að þau séu reiðubúin að taka á sig skuldbindingar um samdrátt í losun.

Ríkisstjórnin hefur tvö leiðarljós í loftslagsviðræðunum. Annars vegar að Ísland skipi sér í hóp þeirra ríkja sem vilja ná metnaðarfullu hnattrænu markmiði í loftslagsmálum og leggja sitt af mörkum til að ná því markmiði. Hins vegar á íslenskt efnahagslíf og atvinnustarfsemi að búa við réttlátar og gegnsæjar reglur um losun gróðurhúsalofttegunda, sambærilegar við þær sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Án metnaðarfullra markmiða og skuldbindinga munu ríki heims ekki ráða við loftslagsvandann. Án sanngirni og gegnsærra reglna mun ekki nást sátt um hnattrænt átak gegn vanda sem ekkert ríki ræður eitt við.

Kýótó og Kaupmannahöfn

Loftslagsfundurinn í Kaupmannahöfn á að ganga frá nýju samkomulagi um skuldbindingar ríkja eftir að núverandi skuldbindingar ríkja skv. Kýótó-bókuninni renna út árið 2012. Það er rétt að rifja þær skuldbindingar upp í stuttu máli. Í Kýótó fékk Ísland heimild til að auka losun um 10% á tímabilinu 2008-2012, miðað við 1990. Noregur fékk heimild til 1% aukningar og Ástralía um 8%. Flest ríki þurftu hins vegar að skera niður losun: ESB-ríkin um 8%, Japan um 6% og Bandaríkin um 7%, svo dæmi séu nefnd. Bandaríkin staðfestu hins vegar aldrei Kýótó-bókunina og hafa staðið á hliðarlínunni í loftslagsviðræðunum þar til nú á þessu ári. Ísland fékk rýmri heimildir en önnur ríki einkum vegna þess að hér er notuð endurnýjanleg orka til hitunar og rafmagnsframleiðslu, en ekki mengandi jarðefnaeldsneyti.

Mörg ríki hafa á síðustu mánuðum og misserum tilkynnt markmið um samdrátt í losun til ársins 2020. Evrópusambandið hyggst minnka losun um 20% miðað við 1990, en ef metnaðarfullt hnattrænt samkomulag næst í Kaupmannahöfn ætlar ESB að draga saman um 30%. Það er 22 prósentustiga strangara markmið en í Kýótó. Noregur og Sviss hafa sett fram svipuð markmið. Samþykkt ríkisstjórnarinnar þýðir að Ísland sé tilbúið að taka á sig a.m.k. 30 prósentustiga strangara markmið en samið var um í Kýótó. Með því er Ísland að senda skilaboð um að við sjáum okkur í sveit ríkja sem sýna mestan metnað í loftslagsmálum.

Óbreyttar reglur eða uppstokkun?

Ekki liggur enn ljóst fyrir hvort reglur í væntanlegu Kaupmannahafnar-samkomulagi verða hinar sömu og í Kýótó-bókuninni, s.s. varðandi bindingu kolefnis í gróðri og verslun með losunarheimildir á milli ríkja. Þau ríki sem tilkynnt hafa um töluleg markmið fyrir 2020 hafa flest sett fyrirvara um að það miðist við óbreyttar reglur. Hið sama gildir um Ísland. Yfirlýsingin um 15% samdrátt til 2020 miðar við að núgildandi reglur Kýótó-bókunarinnar haldi áfram.

Það þýðir ekki að Ísland vilji ekki breyta þeim reglum. Ísland hefur lagt fram tillögu um að endurheimt votlendis verði viðurkennd sem leið til bindingar kolefnis. Verði það samþykkt gæti Ísland hugsanlega sett metnaðarfyllri markmið en ella.

Annað atriði í núverandi regluverki Kýótó-bókunarinnar sem íslensk stjórnvöld vilja gjarnan breyta er hið svokallaða “íslenska ákvæði”, eða ákvörðun 14/CP.7, sem heimilar að bókfæra losun frá stóriðju eftir 1990 utan Kýótó-bókhaldsins upp að ákveðnu marki. Ákvæðið er í eðli sínu undanþáguákvæði, er flókið í framkvæmd og hindrar viðskipti Íslands með losunarheimildir. Segja má að ákvörðunin verði að miklu leyti úrelt eftir árið 2012, því þá fellur áliðnaður og járnblendiframleiðsla á Íslandi undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins, í samræmi við EES-samninginn. Ísland gæti þá búið við tvöfalt kerfi bókhalds og skuldbindinga varðandi stóran hluta losunar, annars vegar gagnvart loftslagssamningnum en hins vegar gagnvart EES-samningnum. ESB-ríki munu ekki búa við slíkt, því þau taka á sig skuldbindingar gagnvart loftslagssamningnum sem heild, en ekki sem einstök ríki.

Stóriðja mun greiða fyrir losun

Kerfi ESB nær til EES-ríkjanna, en mörg önnur ríki eru einnig að feta svipaða braut, að setja upp viðskiptakerfi, þar sem stórir losendur gróðurhúsalofttegunda eru skyldaðir til að draga úr losun. Slíkt kerfi er hvetjandi til tækniframfara, þar sem þeir sem geta minnkað losun mest geta selt umframheimildir til hinna sem ekki tekst að mæta kröfum. Hugsanlega verða slík viðskiptakerfi tengd saman í framtíðinni.

Íslensk stóriðjufyrirtæki verða að búa sig undir að heimildir þeirra til losunar munu þrengjast í framtíðinni og þeim verður gert að kaupa heimildir til losunar í auknum mæli í viðskiptakerfi ESB. Undanþágur á borð við “íslenska ákvæðið” munu heyra sögunni til í framtíðinni. Íslensk stjórnvöld eiga nú í viðræðum við ESB um hvernig hægt sé að samræma skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum og væntanlegu nýju alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál. Hugsanlega yrði það best gert með því að Ísland tæki á sig sameiginlegt markmið með ESB-ríkjunum.

Virk þátttaka í stað undanþága

Þótt aðeins sé hálft ár þar til Kaupmannahafnar-fundurinn hefst, getur margt breyst fram að honum. Mörgum af stærstu spurningum samningaviðræðnanna er ósvarað, s.s. hvernig stór þróunarríki á borð við Kína og Indland taki aukna ábyrgð. Einnig liggja fyrir fjölmargar tillögur um breytingar á reglum Kýótó-kerfisins. Tilkynningar Íslands og annarra ríkja um áform um samdrátt í losun eru innlegg í samningaviðræðurnar á þessu stigi, en ekki endilega sú niðurstaða sem gengið verður frá í Kaupmannahöfn.

Umhverfisráðherra mun á næstunni láta gera aðgerðaáætlun um minnkun losunar fyrir 2020 með öflugri þátttöku almennings, á grunni vinnu sérfræðinganefndar sem hefur metið möguleika Íslands í þeim efnum. Ég tel víst að hægt sé að draga úr losun á ýmsum sviðum og auka bindingu kolefnis og hraða upptöku nýrrar loftslagsvænnar tækni. Margt er hægt að gera á hagkvæman hátt og sumar aðgerðir borga sig jafnvel óháð loftslagsávinningnum. Samþykkt ríkisstjórnarinnar um að Ísland ætli að minnka losun um 15% að lágmarki frá 1990 til 2020 eru fyrsta skrefið í átt til nýrrar metnaðarfullrar stefnu í loftslagsmálum. Í Kýótó var erindi Íslands einkum að biðja um undanþágur frá reglum bókunarinnar. Í Kaupmannahöfn mun Ísland ganga til liðs við þau ríki sem ætla sér að vera í framvarðasveit í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Við höfum nú þegar sent skilaboð til umheimsins um að þar viljum við vera.



Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
Svandís Svavarsdóttir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta