Aðalnámskrá framhaldsskóla: námsbrautir fyrir aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum - Kynning á drögum að nýrri námskrá
Greinargerð
Drög að aðalnámskrá framhaldsskóla fyrir leikskólaliða, skólaliða og stuðningsfulltrúa í grunnskólum sem nú eru til kynningar fela í sér nokkrar breytingar á gildandi aðalnámskrá fyrir aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum sem tók gildi árið 2003. Námskráin var endurskoðuð að frumkvæði starfsgreinaráðs uppeldis- og tómstundagreina í samstarfi við framhaldsskóla, einkum Borgarholtsskóla, með það að markmiði að koma betur til móts við námsþarfir nemenda og hæfnikröfur atvinnulífs.
Um er að ræða endurskoðun á áherslum og uppröðun námsþátta í nokkrum áföngum sérnáms byggða á reynslu undangenginna ára. Enn fremur var umfang almennra greina á námsbrautum leikskólaliða og stuðningsfulltrúa í grunnskólum fært til samræmis við aðrar starfsnámsbrautir af svipaðri lengd og styttist þar með meðalnámstími á þessum brautum úr fjórum önnum í þrjár.
Þá voru brúarafbrigði námsbrautanna endurskilgreind og felld inn í námskrána.
Námskrárdrögin verða til kynningar á vefsvæði þessu til 15. júní 2009.
Á þeim tíma gefst hagsmunaaðilum og almenningi kostur á að senda athugasemdir og ábendingar um námskrána í heild eða einstaka þætti hennar til menntamálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík.
Einnig er hægt að senda athugasemdir á netfangið [email protected].
Að loknu umsagnarferlinu mun ráðuneytið gera þær lagfæringar á námskránni sem nauðsynlegar teljast, staðfesta hana og senda auglýsingu um gildistöku hennar til birtingar í Stjórnartíðindum. Námskráin verður að því loknu birt á námskrárvef ráðuneytisins.