Umhverfisráðherra heimsækir stofnanir umhverfisráðuneytisins
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur heimsótt stofnanir umhverfisráðuneytisins á undanförnum dögum. Hún hefur nýtt heimsóknirnar til að kynna sér starfsemi stofnananna og til að ræða við starfsfólk þeirra um þau verk sem þar eru unnin og framtíðarhorfur.
Umhverfisráðherra hefur meðal annars lagt á það áherslu við starfsfólk stofnananna að í umhverfismálum verði að efla samskipti við almenning og auka þátttöku allra þeirra sem láta sig málaflokkinn varða.
Stofnanir umhverfisráðuneytisins eru tólf talsins og í þeim starfa um 500 manns. Stofnanirnar gegna lykilhlutverki í framkvæmd einstakra málaflokka og eru í raun framkvæmdaarmur ráðuneytisins. Náið samstarf er milli ráðuneytisins og stofnana þess, m.a. eru haldnir reglulegir samráðsfundir.
Brunamálastofnun sinnir eftirliti og fræðslu á sviði brunamála og hefur umsjón með eldvarnareftirliti og slökkvistarfi sveitarfélaganna. .
Landgræðsla ríkisins er þekkingar og þjónustustofnun sem vinnur að jarðvegs- og gróðurvernd, stöðvun landeyðingar og endurheimt landgæða.
Landmælingar Íslands sinna landmælingum og vinnslu landupplýsinga, skráningu og vörslu gagna og miðlun þeirra til samfélagsins.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur það meginhlutverk að rannsaka og vakta íslenska náttúru og safna og vinna úr heimildum um hana. Rannsóknirnar snúa að grasafræði, dýrafræði og jarðfræði.
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn sinnir rannsóknum í tengslum við verndun Mývatns og Laxár og er stjórnvöldum til ráðgjafar um náttúruvernd.
Skipulagsstofnun fer með skipulags- og byggingarmál, mat á umhverfisáhrifum og umhverfismat áætlana. Stofnunin sinnir afgreiðslu, eftirliti, leiðbeiningum og fræðslu innan þessara málaflokka.
Skógrækt ríkisins vinnur að rannsóknum, þróun, ráðgjöf og þekkingarmiðlun á sviði skógræktar. Hún hefur umsjón með þjóðskógunum.
Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sinnir málefnum sjálfbærrar þróunar og umhverfis á norðurslóðum með rannsóknum, upplýsingamiðlun og alþjóðlegu samstarfi.
Umhverfisstofnun sinnir verkefnum sem lúta að loftslagsmálum, náttúruvernd, úrgangsmálum, veiðistjórnun, efnum og efnavörum, mengunarmálum, dýravernd, erfðabreyttum lífverum, umhverfishluta EES-samningsins, hollustuháttum og umhverfismerkingum. .
Úrvinnslusjóður sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Sjóðurinn beitir hagrænum hvötum til að koma á laggirnar skilvirku fyrirkomulagi við úrvinnslu úrgangs. .
Vatnajökulsþjóðgarður fer með stjórn þjóðgarðsins, rekur gestastofur hans, sinnir landvörslu og annast fræðslu og þjónustu. .
Veðurstofa Íslands annast rannsóknir á veður- og vatnafari og vöktun vegna náttúruvár og gefur út viðvaranir og spár um hættu af völdum veðurs og veðurtengdra þátta, jarðskjálfta, eldgosa, vatnsflóða og ofanflóða.