Menntaskólinn að Laugarvatni er Íþróttaskóli ársins 2009
,,Íþróttaskóli ársins 2009", úr röðum framhaldsskóla, var í fyrsta skiptið krýndur á útskriftarhátíð Menntaskólans að Laugarvatni, laugardaginn 30. maí síðastliðinn. Þórólfur Þórlindsson, fyrrverandi forstjóri Lýðheilsustöðvar, afhenti fulltrúum nemenda veglegan bikar í tilefni af þessum góða árangri skólans.
Íþróttavakning framhaldsskólanna er eitt af nokkrum verkefnum sem stýrihópur um Heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum (HOFF) setti á laggirnar haustið 2008. Menntaskólinn að Laugarvatni bar sigur úr býtum í þessu átaki eftir spennandi keppni, sem stóð yfir í allan vetur.
Tilgangur verkefnisins er fyrst og fremst sá að fá sem flesta framhaldsskólanema til að hreyfa sig á hverjum degi og þar með hvetja nemendur til þess að auka vægi hreyfingar í daglegu lífi sem leiðir svo aftur til bættrar heilsu nemenda og meiri árangurs í lífi og starfi. Aðstandendur HOFF verkefnisins eru menntamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Lýðheilsustöð og félög framhaldsskólanema, SÍF og HÍF.
Átakið í vetur var tvíþætt. Annars vegar var skipulögð almenn hreyfing í skólunum með það að markmiði að fá sem flesta nemendur til að hreyfa sig og hins vegar var keppt í nokkrum hefðbundum íþróttagreinum, s.s. blaki, körfubolta, innanhússfótbolta, frjálsum íþróttum og sundi, á milli framhaldsskólanna. Alls tóku um 8500 nemendur frá 28 framhaldsskólum af 30 þátt í íþróttavakningunni sem verður árlegur viðburður í starfi framhaldsskólanna upp frá þessu.
Eins og áður sagði sigraði Menntaskólinn að Laugarvatni, bæði í keppnishlutanum og almenna hlutanum. Röð fimm efstu skólanna er eftirfarandi:
Skóli |
Stig úr almenna hluta |
Stig úr keppnishluta | Samanlagt |
---|---|---|---|
Menntaskólinn að Laugarvatni |
160 |
70 | 238 |
Fjölbrautaskóli Snæfellinga |
140 |
53 | 193 |
Framhaldskólinn að Laugum |
126 |
41 | 167 |
Menntaskólinn í Reykjavík |
137 |
0 | 137 |
Borgarholtsskóli |
66 |
56 | 124 |
- Frekari upplýsingar um frammistöðu framhaldsskólanna og myndir má finna á vef vakningarinnar.