Hoppa yfir valmynd
5. júní 2009 Matvælaráðuneytið

Nr. 20/2009 - Endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar

Með vísan til stefnuyfirlýsingar núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, ákveðið að skipa starfshóp um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar og hefur eftirtöldum aðilum verið boðið að tilnefna fulltrúa í starfshópinn:

Vinstrihreyfingunni grænu framboði tvo fulltrúa, Samfylkingunni tvo fulltrúa, Borgarahreyfingunni einn fulltrúa, Framsóknarflokki einn fulltrúa, Sjálfstæðisflokki einn fulltrúa, Landssambandi íslenskra útvegsmanna einn fulltrúa, Landsambandi smábátaeigenda einn fulltrúa, Sambandi íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa, Samtökum fiskvinnslustöðva einn fulltrúa, Starfsgreinasambandi Íslands - matvælasviði einn fulltrúa og Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og VM, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, einn fulltrúa sameiginlega. Ráðherra mun síðan ráða verkefnisstjóra er vinni fyrir starfshópinn.

Gert er ráð fyrir að vinna starfshópsins felist í að skilgreina helstu álitaefni, sem fyrir hendi eru í fiskveiðistjórnuninni og lýsa þeim.  Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni séu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, en jafnframt að sátt náist um stjórn fiskveiða.  Starfshópnum er gert að hafa sem víðtækast samráð við aðra aðila, t.d. með viðtölum, viðtöku álitsgerða og á veraldarvefnum.  Honum er gert að skila af sér álitsgerð fyrir 1. nóvember n.k.  Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á, mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.

 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, vill í þessu sambandi koma á framfæri að hann geri miklar kröfur til vinnuhópsins um að koma fram með tillögur sem skapi greininni góð rekstrarskilyrði til lengri tíma í sátt við þjóðina og undir liggi að þetta verði gert með sjálfbærum hætti. Vinnuhópurinn taki einnig tillit til atvinnuöryggis fólks í sjávarbyggðunum. Hann leggur áherslu á að vinnuhópurinn vinni faglega að málinu.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, treystir fyrirfram þeim aðilum sem tilnefndir verða til að leggja sig alla fram, því mjög mikil ábyrgð er lögð á herðar þessa vinnuhóps – þau vita hvað er undir – þau verða beinlínis að ná saman. Vinnuhópurinn á að korleggja álitaefni og leggja fram valkosti sem lagt geta grunn að sátt um verndun og nýtingu þessara mikilvægu náttúruauðlinda þjóðarinnar. Eftir að vinnuhópur hefur skilað af sér, mun ráðherra taka greinargerð hans til skoðunar áður en áframhald málsins er ákveðið.  Ef allt fer að óskum má búast við frumvarpi á haustþingi 2010.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta