Hoppa yfir valmynd
5. júní 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um verð á eldsneyti

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 4. júní 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hækkanir á vörugjöldum á eldsneyti sem Alþingi samþykkti í síðustu viku eru að sjálfsögðu gerðar af brýnni þörf og eru hluti af aðgerðum stjórnvalda til að leysa þann mikla efnahagsvanda sem við er að etja.

Strax eftir að lögin tóku gildi hækkaði verð á eldsneyti sem aukinni skattheimtu nam. Þannig fór verð á bensíni strax yfir 180 kr. en það lækkaði síðan enda hefur gengi krónunnar styrkst nokkuð frá því áður en þessar hækkanir á vörugjöldum voru tilkynntar.

Bensínverð er nú um 178 krónur lítrinn og díselolía kostar um 168 krónur á höfuðborgarsvæðinu. Viðbrögð við hækkuðum vörugjöldum voru eins og við var að búast en rétt er að halda til haga nokkrum staðreyndum um málið. Þrátt fyrir þessar hækkanir er verð á eldsneyti á Íslandi enn með því ódýrasta í Evrópu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þar sem 18 löndum er raðað eftir verði á bensíni samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Vegagerðarinnar í Danmörku (trafikken.dk). Fyrir Ísland eru upplýsingar teknar af vefsíðu n1.is 2. júní og sýna meðalverð í sjálfsafgreiðslu.

Eldsneytisverð í 18 Evrópulöndum

Bensín er um þessar mundir dýrast í Hollandi af Evrópuríkjum og kostar þar um 250 krónur hver lítri, sem er yfir 40% hærra en hér á landi. Noregur, Belgía og Danmörk eru skammt undan með verð yfir 235 krónur á lítrann, sem er um þriðjungi dýrara en hér á landi.

Á myndinni má sjá að það er einungis á Spáni, í Sviss, á Írlandi og í Póllandi sem bensín er ódýrara en hér á landi og er bensínverðið lægst í Póllandi, eða um 160 krónur hver lítri. Díselolía er dýrust í Noregi og Stóra-Bretlandi, yfir 200 krónur á lítrann, sem er um 15% dýrara en hér á landi. Í 6 Evrópuríkjum er díselolía ódýrari en á Íslandi og þar af er hún ódýrust í Lúxemborg og Póllandi, eða um 142 krónur hver lítri, sem er tæplega 20% ódýrara en hér á landi.

Eftir nýorðnar hækkanir á gjöldum er hlutur hins opinbera í endanlegu verði bensíns 92,5 krónur sem er rétt um 52%. Í díselolíu er hlutur hins opinbera 84,9 krónur eða 49,5%. Ekki liggja fyrir samanburðartölur fyrir Evrópulönd í þessum efnum en samkvæmt upplýsingum Svenska Petroleum Institutt (spi.se) var hlutur ríkisins 64,5% af bensínverði í Svíþjóð í aprílmánuði eða yfir 130 krónur á lítrann. Á vef Hagstofunnar kemur fram að meðalverð á innfluttu bensíni (cif) til Íslands fyrstu 4 mánuði ársins var tæplega 51 þúsund krónur á hvert tonn sem jafngildir 38 krónum á hvern lítra. Hlutur dreifingarkostnaðar og álagningar er því nálægt 47 krónum á lítra um þessar mundir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta