Hoppa yfir valmynd
8. júní 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra flaggar Grænfána í Furugrund

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhendir Grænfánann í leikskólanum Furugrund.
Sumarhátíð í Furugrund

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti nemendum og starfsfólki leikskólans Fururgrundar í Kópavogi Grænfánann í liðinni viku. Þetta var fyrsti Grænfáninn sem Svandís afhendir frá því að hún tók við starfi umhverfisráðherra. Fáninn var afhentur á sumarhátíð Furugrundar.

Skólar á grænni grein

Verkefnið Skólar á grænni grein (Eco-Schools) var stofnað af alþjóðlegum samtökum, Foundation for Environmental Education (FEE), árið 1994 en Landvernd hefur verið aðili að FEE frá árinu 2000. Þetta er því áttunda skólaár Grænfánaverkefnisins á Íslandi en það hefur vaxið jafnt og þétt frá því að telja 12 grunnskóla fyrsta skólaárið í það að telja 155 skóla á öllum skólastigum í dag. Það sem af er þessu skólaári hafa einir 37 skólar nýskráð sig á græna grein og keppa að því að fá umhverfisviðurkenninguna Grænfánann fyrir sitt starf að umhverfismálum og menntun til sjálfbærrar þróunar. Verkefnið er því í örum vexti. Fáninn er að jafnaði veittur til tveggja ára í senn og skarta þeir skólar sem lengst hafa tekið þátt í verkefninu sínum fjórða fána þetta skólaárið. Alls eru það 80 skólar af þeim 155 sem eru á grænni grein sem flagga fánanum.

Leikskólinn Furugrund

Að mati Landverndar er Leikskólinn Furugrund í Kópavogi framsækinn leikskóli með mörg járn í eldinum. Hann var skráður á græna grein fyrir rétt tæpu ári síðan og hefur síðan þá unnið markvisst að því að stíga skrefin sjö til að öðlast Grænfána. Fyrsta skrefið, stofnun umhverfisnefndar, er án efa mikilvægasta skrefið. Hugmyndin með nefndinni er að í henni eigi sæti fulltrúar allra þeirra hópa sem skólasamfélagið skipa; stjórnenda, starfsfólks, foreldra og/eða aðstandenda og síðast en ekki síst nemenda. Nefndin er vettvangur þar sem allir þessir hópar eiga rödd og tryggir lýðræðislegt samtal um úrlausnarefni á sviði umhverfisverndar. Tilgangurinn er ekki síst sá að þjálfa til framtíðar einstaklinga sem láta sig þennan málaflokk varða og treysta sér til þess að taka afstöðu byggða á rökum og staðreyndum. Þá styður starf nefndarinnar þá mikilvægu staðreynd að umhverfið og umgengnin um það er samstarfsverkefni en ekki eingöngu verkefni áhugasamra einstaklinga.

Leikskólinn tekur þátt í Comeniusarverkefni sem kallast Euro-citizens of the future ásamt fulltrúum fleiri landa. Verkefnið miðar að því að efla umhverfisvitund nemendanna. Fulltrúar hinna þátttökulandanna voru viðstaddir sumarhátíð Furugrundar og tóku þátt í afhendingu Grænfánans.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta