Hoppa yfir valmynd
9. júní 2009 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna í Reykjavík 8.-9. júní 2009

Norrænu utanríkisráðherrarnir funda í Reykjavík
nordic_ministers_090609

Fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna

Reykjavík, 8.-9. júní 2009

Yfirlýsing

Utanríkisráðherrar Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar funduðu í Reykjavík dagana 8.-9. júní 2009 og ræddu þar leiðir til að efla norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála. Ráðherrarnir leggja áherslu á hin sterku gildi sem Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð eiga sameiginleg. Sameiginlegur áhugi er meðal ríkjanna á að efla stöðugleika á Norðurlöndunum og nágrannasvæðum þeirra. Á grundvelli sameiginlegra hagsmuna og landfræðilegrar nálægðar er eðlilegt að Norðurlöndin starfi saman í anda samstöðu að lausn ögrandi verkefna á sviði utanríkis- og öryggismála. Efling norrænnar samvinnu er í samræmi við öryggis- og varnarmálastefnu allra Norðurlandanna og kemur til viðbótar því evrópska samstarfi og Evró-Atlantshafssamstarfi sem þegar er fyrir hendi. Viðleitni til að efla lýðræði og þjóðarétt, þar á meðal mannréttindi, kynjajafnrétti og sjálfbæra þróun, er óaðskiljanlegur hluti utanríkisstefnu norrænu ríkjanna. 

Með þetta í huga fagna ráðherrarnir þeim tillögum sem koma fram í skýrslu Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Noregs. Ráðherrarnir höfðu frumkvæði að gerð þessarar skýrslu á fundi sínum í Lúxemborg 16. júní á síðasta ári, en þar var Thorvald Stoltenberg beðinn að vinna skýrslu um með hvaða hætti norrænu ríkin gætu eflt samvinnu sína í viðleitni til að bregðast við framtíðarviðfangsefnum á sviði utanríkis- og öryggismála. Ráðherrarnir fagna framlagi hans og þakka þeim aðilum sem lagt hafa fram efni til hennar.

Tillögurnar í Stoltenberg-skýrslunni eru mikilvægt innlegg í eflingu norræns samstarfs á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála. Með eflingu norræns samstarfs verða norrænu ríkin betur í stakk búin til að takast á við sameiginleg verkefni á Norðurlöndunum og um allan heim, þar með talið að mæta þeim vanda sem stafar af loftslagsbreytingum. 

Ráðherrarnir leggja áherslu á að sumar tillagnanna séu aðkallandi, en aðrar þurfi að endurskoða með tilliti til langtíma sjónarmiða og að sumar séu þegar í skoðun hjá norrænu ríkjunum, í einhverjum tilvikum í samvinnu við önnur ríki. Ráðherrarnir fagna þessari vinnu og hvetja til áframhaldandi starfs af þessum toga. Mikilvægi þess að fá önnur ríki, ekki síst Eystrasaltsríkin, með í norrænt samstarf er jafnframt áréttað. 

Ráðherrarnir eru sammála um að aukin norræn samvinna skuli koma til viðbótar núverandi samvinnu og skuldbindingum ríkjanna á vettvangi NATO, ESB og ÖSE. Ennfremur er sú almenna afstaða áréttuð að einungis með skilvirkri marghliða samvinnu, ekki síst innan ramma Sameinuðu þjóðanna, megi finna lausn á fjölþjóðlegum vandamálum.

Norræn samvinna verður efld á sveigjanlegan hátt, þar sem tekið verður tillit til hagsmuna og úrræða hvers ríkis fyrir sig.

Að ósk ráðherranna hafa háttsettir embættismenn kannað hagkvæmni við framkvæmd þessara tillagna. Á grundvelli bráðabirgðaniðurstaðna þeirra hafa utanríkisráðherrarnir komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að skoða tillögurnar nánar með það að markmiði að benda á þau svið þar sem hægt væri að efla samvinnu að teknu tilliti til þeirrar vinnu sem þegar er hafin.

Sumar tillagnanna innihalda atriði sem brýnt er að taka strax til skoðunar. Meðal þessara atriða má nefna krísustjórnun, loftrýmiseftirlit og fjarskipti, gervihnattaþjónustu, öryggi á Netinu, utanríkisþjónustu, samstarf á sviði hernaðarflutninga, læknisþjónustu, menntun, búnað og æfingasvæði.

Norðurlöndin munu stuðla að heildarnálgun á sviði forvarna gegn átökum, á sviði krísustjórnunar og uppbyggingar stöðugleika í kjölfar átaka. Fyrsta skrefið verður að byggja upp nánara samstarf um þjálfun innan ramma krísustjórnunar. Einnig verður frekari viðleitni til stuðnings aðgerðum Sameinuðu þjóðanna tekin til athugunar.

Ráðherrarnir vekja athygli á að efling norræns samstarfs á sviði loftrýmiseftirlits er mikilvægur þáttur í þróun hagnýtrar norrænnar samvinnu. Ráðherrarnir vekja athygli á að Danmörk og Noregur hafa þegar veitt Íslandi aðstoð á sviði aðgerða og tekið þátt í loftrýmiseftirliti. Ráðherrarnir samþykkja að kanna betur hagkvæmni tillögu um eftirlit með loftrými Íslands, undir stjórn Íslands, með vísan til fyrsta og annars áfanga tillögunnar.

Með vísan til tillögu um hugsanlegt opinbert kerfi til eftirlits með umhverfismálum á hafi úti, benda ráðherrarnir á að Noregur hefur boðist til að deila upplýsingum með hinum norrænu ríkjunum úr bráðabirgðaskýrslu um slíkt kerfi („Barents Watch“). Ráðherrarnir vekja einnig athygli á að umfangsmikil alþjóðleg samvinna er þegar fyrir hendi á Eystrasalti. Eftirlitskerfið gæti stuðst við gervihnetti sem þegar eru fyrir hendi og áhugasöm norræn ríki hafa hafið samræður um með hvaða hætti efla mætti almennt samstarf á þessu sviði.

Vinnuhópi sérfræðinga verður komið á fót til að kanna kostina við eflingu norræns samstarfs með tilliti til alþjóðlegrar gervihnattaþjónustu. Vinnuhópurinn skal skilgreina hugsanlega sameiginlega hagsmuni og gera tillögur um með hvaða hætti frekari framvinda ætti að vera. Vinnuhópnum er ætlað að skila skýrslu sinni fyrir næsta fund utanríkisráðherranna.

Ráðherrarnir eru einnig sammála um að aukin atvinnustarfsemi á heimskautssvæðinu og í Norðurhöfum kalli á meiri viðveru strandgæsluskipa, vegna þess mikilvæga hlutverks sem þau gegna við leit og björgun. Ráðherrarnir benda á að slíkri viðleitni þyrfti að fylgja eftir með samstarfi við önnur ríki. Þeir minnast ákvörðunar sinnar frá ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Tromsø 29. apríl þar sem samþykkt var að koma á starfshópi (e. task force) til að vinna að og ljúka samningaviðræðum um alþjóðlegan sáttmála um samvinnu á sviði leitar- og björgunaraðgerða á Norðurskautinu fyrir næsta ráðherrafund árið 2011.

Ráðherrarnir vekja athygli á því að í skýrslu Stoltenbergs eru ýmsar tillögur sem tengjast Norðurskautinu og Norðurhöfum, þar sem er að finna sameiginlegar áskoranir fyrir Norðurlöndin á mörgum sviðum tengdum áframhaldandi norrænni samvinnu um málefni Norðurskautsins. Þetta endurspeglast einnig í náinni samvinnu Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar í samfelldri formennskutíð þessara ríkja í Norðurskautsráðinu. Við undirbúning loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn í desember og í því starfi sem fara mun fram í kjölfar ráðstefnunnar mun sérstök athygli beinast að loftslagsbreytingum á Norðurskautinu.

Hvert fyrir sig hafa Norðurlöndin takmarkaða getu til að leysa úr sívaxandi fjölda atvika og hagnýtra atriða sem varða umhverfismál, loftslagsmál, öryggismál og björgunarstörf á Norðurskautssvæðinu. Ráðherrarnir hafa því ákveðið að starfa náið saman að eftirfylgni við tiltekin atriði sem nefnd eru í yfirlýsingu fundar Norðurskautsráðsins í Tromsø gagnvart hlutaðeigandi alþjóðastofnunum á borð við Alþjóðasiglingamála-stofnunina (IMO).

Norðurlöndin munu vinna að eflingu samstarfs sem ætlað er að viðhalda og styrkja hið óvenjuöfluga umhverfi netöryggismála sem fyrir hendi er í löndunum. Þessu starfi verður sinnt af neyðarviðbragðshópum um tölvuöryggismál og öðrum viðurkenndum aðilum sem hafa með öryggismál upplýsingasamfélagsins að gera. Efling samvinnu á þessu sviði gæti falið í sér að greiða fyrir, bæði tæknilega og lagalega, miðlun leynilegra upplýsinga milli stjórnvalda á Norðurlöndunum í þeim tilgangi að taka á netöryggisvandamálum með enn skilvirkari hætti. 

Þar til bær yfirvöld starfa þegar saman á sviði viðbúnaðar við krísuástandi innan NORDRED-samstarfsins. Ráðherrarnir benda á að þeir muni halda áfram að efla þetta samstarf innan núverandi samstarfsramma.

Ráðherrarnir lýsa yfir ánægju sinni með norræna ráðherrafundinn um almannavarnir og viðbúnað við hættuástandi sem haldinn var í Stokkhólmi 27. apríl síðastliðinn og þeim eftirfylgniaðgerðum sem þar voru samþykktar. Þessi nýi vettvangur er mikilvægt framlag til þess að sýna í verki viljann til frekari eflingar norræns samstarfs.

Öflugt svæðisbundið samstarf skiptir sköpum til að hægt sé að handsama og rétta yfir stríðsglæpamönnum, og þær aðferðir sem Norðurlöndin beita við skipulagningu rannsókna og málssókna er lykilatriði. Í Stoltenberg-skýrslunni er bent á ýmis ögrandi verkefni sem Norðurlöndin standa nú frammi fyrir og munu þurfa að takast á við í framtíðinni. Ráðherrarnir eru sammála um að skoða leiðir til að efla norræna samvinnu á þessum sviðum.

Ráðherrarnir láta í ljósi eindreginn vilja sinn til nánara samstarfs milli sendiráða Norðurlandanna í viðleitni til að styrkja skilvirkni og áhrif Norðurlandanna á alþjóðavísu.  Þeir hafa skilgreint tiltekin svið þar sem frekari samvinnu verður við komið, m.a. á sviði stjórnmála og efnahagsmála, ræðismála, menningarmála, um eflingu verslunar og viðskipta, sem og á sviði stjórnsýslu. Þeir eru sammála um að halda áfram tilraunaverkefni um samvinnu milli sendiráða Norðurlandanna í Kabúl.

Ráðherrarnir hafa í huga hið umfangsmikla samstarf í utanríkismálum og varnarmálum sem er í sífelldri þróun milli norrænu ríkjanna á margvíslegum sviðum hernaðarlegs og borgaralegs eðlis. Virkt norrænt varnarmálasamstarf er þegar fyrir hendi innan friðargæslu (NORDCAPS), birgðasveita (NORDSUP) og hergagnaöflunar (NORDAC). Í þessu samhengi fagna utanríkisráðherrarnir þeirri ákvörðun norrænu varnarmálaráðherranna að færa alla starfsemi undir eina öflugri einingu með það í huga að efla samræmingu og skilvirkni samstarfsins. Þetta mun efla getu norrænu ríkjanna til að bregðast við hernaðarlegum ógnum bæði á yfirráðasvæði Norðurlandanna og hnattrænt.

Áframhaldandi starf og eftirfylgni við að efla norræna samvinnu mun eiga sér stað innan þess skipulags sem þegar er fyrir hendi og á ábyrgð þeirra ráðherra sem viðkomandi svið heyrir undir. Ráðherrarnir fela háttsettum embættismönnum það verkefni að fylgja eftir frekari þróun á sviði norrænnar samvinnu í utanríkis- og öryggismálum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta