Nr. 21/2009 - 14. fundur sjávarútvegsráðherra við Norður-Atlantshafið, 3. - 6. júní 2009
Dagana 3.-6. júní hittust sjávarútvegsráðherrar Norður-Atlantshafsins á árlegum fundi í Kaliningrad í Rússlandi.
Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sótti fundinn fyrir hönd Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra. Auk Íslendinga sóttu fundinn Norðmenn, Grænlendingar, Færeyingar, Kanadamenn, fulltrúar Evrópusambandsins og Rússar sem jafnframt buðu til fundarins í ár.
Aðalefni fundarins voru viðmið og þróun á úthlutun aflaheimilda meðal aðildarríkja svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana Norður-Atlantshafsins. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að ríki uppfylltu skuldbindingar sínar í samvinnu um verndun og nýtingu lifandi auðlinda hafsins, slíkt væri forsenda sjálfbærra fiskveiða. Í slíku samhengi væru þrenn grundvallaratriði sem aðildarríki svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana þyrftu að taka ákvarðanir um. Það fyrsta og erfiðasta væri ákvörðun um aflahámark og í framhaldi af því skipting aflaheimilda milli aðildarríkja. Annað atriði væri samþykkt á stjórnun og útfærsla reglugerða og það þriðja sem taka þyrfti á væri framfylgd reglna um veiðar.
Ísland lagði sérstaka áherslu á að virða bæri þann lagalega grunn sem væri til staðar í Hafréttarsáttmálanum og Úthafsveiðisamningnum. Innan fiskveiðistjórnunarstofnana væru notuð almenn viðmið, sem mælt er fyrir um í Úthafsveiðisamningum, sem tekið væri tillit til við skiptingu aflaheimilda. Grunnurinn væri til staðar og það sem skipti máli væri pólitískur vilji þeirra stjórnvalda sem tækju þátt í samningaviðræðum. Fundurinn tók undir þetta sjónarmið Íslands.
Ríkin voru sammála um að erfitt væri að gera einhverja almenna, alhliða reglu um úthlutun, jafnvel innan einnar fiskveiðistjórnunarstofnunar. Vægi viðmiða skyldi ekki taka eingöngu mið af einkennum hvers fiskistofns heldur einnig hagsmunum allra þeirra ríkja sem nýta hann. Mikilvægt væri að tryggja að kvótaúthlutun fæli í sér langtíma stöðugleika í samningum. Nauðsynlegt væri einnig að vinna að því að ná samkomulagi um þá fáu stofna þar sem skipting aflaheimilda hefur ekki farið fram.
Að lokum ræddi fundurinn stuttlega um hagræn og félagsleg áhrif banns á innflutning og verslun með afurðir sela innan ESB. Einnig var lagður fram til kynningar texti framkvæmdarstjórnar ESB um áhrif loftslagsbreytinga á auðlindastjórnun á Norðurskautinu og Norðmenn kynntu nýjustu þróunina í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum þar sem fundurinn samþykkti að auka bæri upplýsingaflæði milli ríkja til að auðvelda þá baráttuna.
Ályktun fundarins á ensku má sjá hér.
Andrey Krayniy, sjávarútvegsráðherra Rússlands og Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðrráðuneytinu.