Hoppa yfir valmynd
9. júní 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Viðhorf fólks til mismununar

Frá kynningarfundi þar sem kynnt var ný könnun á viðhorfum fólks til mismununar á ÍslandiFélags- og tryggingamálaráðuneytið og Mannréttindaskrifstofa kynntu í dag niðurstöður könnunar á viðhorfum almennings til mismununar á Íslandi. Einnig var ýtt úr vör átaki sem ætlað er að sporna við mismunun undir yfirskriftinni „Fylgdu hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni“ til að sporna við mismunun.

Spurt var um viðhorf fólks til mismununar af völdum kynferðis, fötlunar, trúar, aldurs og kynþáttar eða þjóðernis. Þátttakendur í könnuninni voru spurðir hve algengt þeir teldu að fólki væri mismunað af þessum sökum, hvort þeir teldu að mismunun eða áreitni vegna framantalinna þátta hefði aukist eða minnkað síðastliðin fimm ár og hvort þeir teldu þessi atriði hafa áhrif á tækifæri fólks í atvinnulífinu. Einnig voru þátttakendur spurðir hvort þeir hefðu sjálfir orðið fyrir mismunun eða orðið vitni að því að fólki væri mismunað eða það áreitt af fyrrnefndum ástæðum.

Könnunin fór þannig fram að ýmist var hringt í þátttakendur eða þeim sendur spurningalisti í tölvupósti. Úrtakið var 1.200 manna slembiúrtak fólks 18 ára eða eldra sem valið var af handahófi úr þjóðskrá og var svarhlutfall tæp 54%. Spurningarnar voru unnar með hliðsjón af Eurobarometer-könnun Evrópusambandsins Discrimination in the European Union (pdf. 2,40 MB) sem gerir kleift að bera niðurstöður könnunarinnar að hluta saman við niðurstöður slíkra kannana í ríkjum Evrópusambandsins.

Samhliða könnuninni sem kynnt var í dag var ýtt úr vör átakinu „Fylgdu hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni“ sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi fjölbreytni fyrir íslenskt samfélag og þá staðreynd að þótt fólk sé ólíkt á yfirborðinu þá erum við öll eins inn við beinið. Átakinu er ætlað hvetja fólk til að líta í eigin barm og kveða niður fordóma sína og stuðla þannig að samfélagi þar sem allir íbúar njóta virðingar og jafnra tækifæra.

Könnunin og átakið eru styrkt af Progress-áætlun Evrópusambandsins, félags- og tryggingamálaráðuneyti, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Þróunarsjóði innflytjendamála. Að verkefninu koma einnig Alþjóðahúsið, Fjölmenningarsetrið, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Samtökin 78, Samráðsvettvangur trúarbragða og Landssamtökin Þroskahjálp.

Skjal fyrir Acrobat Reader Helstu niðurstöður könnunarinnar og samanburður við aðrar þjóðir

Skjal fyrir Acrobat Reader Könnun á viðhorfum til mismununar á Íslandi - apríl 2009 (Könnunin í heild sinni).



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta