Sameiginleg fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu
Í dag fór fram í sendiráðinu í London ráðstefna um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga. Þátttakendur voru rúmlega 60, fulltrúar fiskkaupenda í Bretlandi og hagsmunaaðilar í breskum sjávarútvegi. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði ráðstefnuna og fjallaði um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga. Dr. Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, flutti erindi, þar sem hann gerði grein fyrir áætlun hagsmunaaðila í sjávarútvegi um umhverfismerkingu íslenskra sjávarafurða. Þorsteinn Sigurðsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni, gerði grein fyrir fiskveiðiráðgjöf stofnunarinnar fyrir næsta fiskveiðiár með sérstakri áherslu á þorsk- og ýsustofnana.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undanfarna daga heimsótt fiskmarkaðina í Grimsby og Hull svo og íslensk fyrirtæki á Humber-svæðinu. Ráðherra segir að hvarvetna sem hann hafi komið hafi hann mætt einlægum vinarhug í garð Íslendinga. Í heimsókninni átti ráðherra viðræður og skiptist á skoðunum við leiðandi aðila í breskum sjávarútvegi. Sjávarútvegsráðherra átti einnig í dag viðræður við sjávarútvegsráðherra Bretlands, Huw Irranca-Davies MP.
Ráðstefnan um ábyrgar fiskveiðar er samstarfsverkefni sendiráðsins í London og Landssambands íslenskra útvegsmanna og er nú haldin í þriðja sinn í London. Fundarstjóri var Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra.