Hoppa yfir valmynd
11. júní 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samningur um Icesave

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 11. júní 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á dögunum var undirritaður samningur við hollensk og bresk stjórnvöldum að veita Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta lán til 15 ára vegna þeirra skuldbindinga sem sjóðurinn stendur frammi fyrir vegna hruns Landsbankans.

Sem skilyrði fyrir lántökunni fær tryggingasjóðurinn framselda kröfu breskra og hollenskra sparifjáreigenda í þrotabú Landsbankans. Fyrstu 7 árin þarf hvorki að greiða afborganir né vexti. Á því tímabili, og síðar, verður hægt að nýta það sem kemur úr þrotabúinu til að greiða skuldina niður án kostnaðar. Árið 2016 verður ábyrgð ríkissjóðs á eftirstöðvum skuldarinnar virk.

Gert er ráð fyrir greiðslum inn á höfuðstól með sölu á eignum Landsbankans og er miðað við að 75% af andvirði Icesave innstæðutrygginganna endurheimtist.

Þær fjárhæðir sem um er rætt eru að hámarki frá Bretum um 2.350 milljónir punda og frá Hollendingum um 1.329 milljónir evra. Í lánasamningnum er getið um hámarkstölur en lokatölurnar ráðast af lokaniðurstöðu nýrrar endurskoðunar Landsbankans á heildartapinu. Í íslenskum krónum hefur verið rætt um að fjárhæðin sé um 640-680 milljarðar króna en hún ræðst af fyrrnefndri endurskoðun sem og gengi íslensku krónunnar.

Vextir reiknast á lánið frá 1. janúar 2009, um er að ræða fasta ársvexti upp á 5,55%, þ.e. 1,25% álag ofan á lágmarksviðmiðunarvexti OECD á langtímalánum sem eru 4,30%. Bæði álagið og viðmiðunarvextirnir eru með því lægsta sem gerist með fasta langtímavexti í Evrópu.

Kostir fastvaxtasamninga umfram breytilega vexti eru eftirfarandi:

  • Vaxtagreiðslur eru þekktar að svo miklu leyti sem áætlanir um endurheimtur af eignum Landsbankans standast.
  • Fastir vextir eru í sögulegu lágmarki ef litið er til síðustu 50 ára.?
  • Breytilegir vextir geta hækkað mikið á stuttum tíma sem gæti þyngt? lausafjárstöðu og afkomu ríkissjóðs verulega.

Varðandi breytilega vexti má nefna að lausafjárinnspýting seðlabanka og mikil útgáfa ríkisbréfa víða um lönd getur orðið til þess að valda verðbólguskoti sem mætt yrði með hækkun skammtímavaxta og þar með breytilegra vaxta.

Fastir og breytilegir vextir í Bretlandi 1957-2009

Meðfylgjandi mynd sýnir þróun fastra og breytilegra vaxta í Bretlandi. Þar má sjá að árið 1977, við lok samdráttarskeiðs í efnahagslífi Bretlands, fóru breytilegir vextir úr um 6% í ríflega 18% og héldust síðan háir um langt árabil.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta