Stýrihópur um mótun sóknaráætlunar og nýrrar atvinnustefnu skipaður
Forsætisráðherra hefur skipað Dag B. Eggertsson borgarfulltrúa formann stýrihóps verkefnisins um sóknaráætlun fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífgæða til framtíðar. Gerð þeirrar áætlunar og mótun nýrrar atvinnustefnu eru meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar.
Aðrir í stýrihópnum eru Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrv. bæjarstjóri á Akureyri, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík.
Eitt meginmarkmið þessarar vinnu er að móta áherslur sem tryggja að Ísland verði eitt af 10 samkeppnishæfustu löndum heims árið 2020.
Stýrihópnum er ætlað að hafa forgöngu um að lagt verði heildstætt mat á styrkleika Íslands og tækifærum og hvernig sækja megi fram, ekki síst á sviði atvinnumála. Með matinu næst yfirsýn yfir áætlanir sem heyra undir ólík ráðuneyti auk þess sem greint verður hvernig þær geti spilað saman. Jafnframt verði gerðar sérstakar sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta fyrir sig til eflingar atvinnulífs og lífsgæða. Þær verða unnar í samráði við íbúa, sveitarfélög, hagsmunaaðila, grasrótarhreyfingar og sérfræðinga.
Stýrihópurinn hefur þegar hafið störf og hann mun efna til viðtæks samráðs til að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn sem sóknaráætlunin verður byggð á. Til að ná markmiðum hennar verði náð er ætlunin að samþættar verði áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðaáætlanir auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmsa vaxtarsamninga og aðra opinbera stefnumótun og framkvæmdaáætlanir sem ætla má að komi til endurskoðunar í kjölfar efnahagshrunsins.
Stýrihópnum er ætlað að setja fram verkefnisáætlun og gert er ráð fyrir að þær áætlanir sem lagðar verði fram á Alþingi frá og með vetri komandi taki mið af verkefninu.