Afhending trúnaðarbréfs á Filippseyjum
Stefán Lárus Stefánsson sendiherra afhenti hinn 10. júní s.l. Gloriu Macapagal-Arroyo forseta Filippseyja trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands á Filippseyjum, með aðsetur í Tókýó. Af því tilefni átti sendiherra fund með forsetanum sem snérist nær einvörðungu um nýtingu jarðvarma en Filippseyjar eru í öðru sæti, á eftir Bandaríkjunum, þeirra ríkja sem nýta jarðhita. Arroyo forseta varð tíðrætt um samstarfsverkefni hins íslenska fyrirtækis Envent og filippínska fyrirtækisins Biliran Geothermal um nýtingu á jarðhitasvæðisins á Bilirin-eyju. Lögð var á það áhersla að í þessu verkefni myndi íslenskt hugvit njóta sín, sérstaklega þegar kemur að auðlindastjórnun og fjölþættri nýtingu jarðvarma, en á Filippseyjum er jarðhitinn nær eingöngu nýttur til rafmagnsframleiðslu.
Íslenski sendiherrann átti fund með Alberto Romulo utanríkisráðherra Filippseyja, þar sem sérstaklega var rætt um reynslu Íslendinga varðandi jarðhitanýtinu. Sömuleiðis var rætt um auðlindastjórnun í sjávarútvegi á Íslandi en það er enn eitt sviðið þar sem Íslendingar eiga athygli filippínskra stjórnvalda óskipta. Romulo utanríkisráðherra lýsti áhuga á að heimsækja Ísland m.a. til að kynna sér nýtingu jarðvarma og sjávarauðlinda, þar með talið kvótakerfi, vísindalega stjórnun og eftirlit.
Sendiherra ræddi við Leandro R. Mendoza samgönguráðherra um hugsanlegann loftferðasamning milli ríkjanna og Ramon Allan V. Oca vara-orkumálaráðherra Filippseyja um orkumál og jarðhitanýtingu. Á síðarnefnda fundinum barst Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í tal og lýsti Oca ánægju filippínskra stjórnvaldas með hvernig þar hefur verið staðið að verki en filippínskir vísindamenn hafa útskrifast úr Jarðhitaskólanum og starfa nú m.a. í orkumálaráðuneytinu í Manila.
Einnig var fundað með Edgardo G. Lacson forseta filippínska verslunarráðsins um viðskipti ríkjanna.