Hoppa yfir valmynd
15. júní 2009 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing norrænu forsætisráðherranna um loftslagsmál

Norðurlönd eru í fararboddi í loftslagsmálum. Styrkja ber enn frekar samstarf á því sviði á næstu
árum þar sem loftslagsmál verða forgangsmál í alþjóðasamstarfi.

1. Norrænu ríkin ætla að vinna markvisst að því að ná fram metnaðarfullum samningi á
loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember og munu norrænu forsætisráðherrarnir leggja
sérstaka áherslu á að unnið verði að því á æðstu stöðum. Mikilvægt er að öll ríki heims leggi sitt af
mörkum til að:

  • Stöðva frekari losun. Eigi síðar en 2020 ber að stöðva frekari aukningu í losun
    gróðurhúsalofttegunda. Það verður að gera með því að skuldbinda iðnríkin til að draga
    umtalsvert úr losun á næstu árum samhliða aðgerðum í þróunarríkjunum þar sem
    grundvöllur verður lagður að samfélögum með minni koltvísýringslosun. Áform landanna í
    loftslagsmálum verða að vera í samræmi við langtímamarkmið um að andrúmsloft jarðar
    hitni ekki meira en um 2 gráður og að dregið verði um helming úr losun gróðurhúsalofttegunda
    fyrir árið 2050 í samræmi við grundvallarákvörðun um sameiginlega en dreifða
    ábyrgð.
  • Raunhæfar losunaráætlanir og fjármögnun. Í Kaupmannahöfn ber að ná sátt um samning
    sem vísar veginn svo metnaðarfull markmið náist, hvort heldur er til skemmri eða lengri
    tíma litið. Markmið okkar er að fylgja samningum eftir með aðgerðum og stefnumiðum sem
    stuðla að sjálfbærri þróun og breytingum í græn hagkerfi. Styðja ber með trúverðugum hætti
    þróunarríkin í aðlögun að því að draga úr koltvísýringslosun. Auðugri ríkjum ber að
    fjármagna aðgerðir sem stuðla að því að fátækustu ríkin nái mælanlegum markmiðum um
    minni losun.
  • Komið verði á alþjóðlegum koltvísýringsmarkaði. Við fögnum áformum um evrópskan
    koltvísýringsmarkað. Mikilvægt er að verðleggja koltvísýring ef takast á að breyta
    hagkerfinu og draga verulega úr losun. Það skiptir öllu ef við eigum að ná markmiðum
    okkar í loftslagsmálum. Við viljum vinna að því að evrópskt kvótakerfi um
    koltvísýringslosun tengist sambærilegum kerfum í öðrum heimshlutum með það að
    markmiði að skapa alþjóðlegan koltvísýringsmarkað.

2. Norrænu ríkin verða að leggja enn frekari áherslu á vistvænar lausnir og vera öðrum til
fyrirmyndar við að byggja upp samfélög þar sem lítið er losað af lofttegundum sem skaða
andrúmsloftið. Ný verkefni og önnur sem þegar hefur verið hleypt af stokkunum eiga að sýna
heiminum hvernig Norðurlönd hafa í sameiningu ráðist gegn loftslagsvandanum með
metnaðarfullum aðgerðum.

  • Öndvegisrannsóknir. Í fyrsta þætti rannsóknaráætlunarinnar setja Norðurlönd rannsóknir í
    loftslagsmálum í forgang. Sex verkefnaáætlanir um betri orkunýtingu, vindorku og aðra
    endurnýjanlega orkugjafa, auk koltvísýringsbindingar, eru til vitnis um alþjóðlegar lausnir.
    Norðurlönd eiga að vera opin fyrir samstarfi við önnur ríki, þar með talið þróunarríkin, um
    að nýta rannsóknir sínar í hagnýtum lausnum.
  • Grænar samgöngur. Norrænu forsætisráðherrarnir vilja nýta norrænt samstarf til að draga
    úr koltvísýringslosun frá samgöngum með betri orkunýtingu og nýjum orkulausnum.

Egilsstöðum, 15. júní 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta