Icesave samningarnir
Fréttatilkynning nr. 36/2009
Samningarnir í endanlegri gerð verða birtir
Samningar Tryggingasjóðs innistæðueiganda og íslenska ríkisins við Bretland annars vegar og Holland hins vegar voru undirritaðir 5. júní sl. Um er að ræða einkaréttarlega lánasamninga sem almennt eru ekki gerðir opinberir nema með samþykki allra aðila. Íslenska ríkið óskaði strax eftir samþykki annarra samningsaðila við því að samningarnir yrðu gerðir opinberir. Veitti tryggingasjóðurinn strax leyfi fyrir birtingu. Aðrir samningsaðilar lögðust gegn almennri birtingu en féllust á fyrir sitt leyti að samningarnir yrðu gerðir aðgengilegir fyrir þingmenn í tengslum við meðferð Alþingis á frumvarpi til laga um ríkisábyrgð. Samningarnir verða kynntir alþingismönnum í dag og í kjölfarið verða þeir gerðir almenningi opinberir. Öðrum samningsaðilum hefur verið greint frá þessari ákvörðun íslenskra stjórnvalda.
Venja í öllum alþjóðlegum lánasamningum
Í umfjöllun um samninginn hefur verið vitnað til ákvæðis um lögsögu. Eins og sjá má í samningunum er í þeim báðum ákvæði um að rísi ágreiningur um efni þeirra skuli um slíkt fara eftir breskum lögum. Það er venja í alþjóðlegum lánasamningum að um ágreining gildi annað hvort lög þess ríkis sem veitir lánið eða bresk lög sem skýrist af stöðu London sem alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar. Það varð að samkomulagi milli aðila að um bæði hollenska og breska lánasamninginn giltu bresk lög. Í því felst að hægt er að bera ágreining um túlkun og framkvæmd samninganna fyrir breska dómstóla, eða aðra dómstóla sem hafa lögsögu en ber þá að leggja bresk lög til grundvallar. Til samanburðar má nefna að í lánasamningum sem eru í burðarliðnum við stjórnvöld Norðurlandanna eru sambærileg ákvæði um lagaskil og lögsögu þeirra.
Enginn grundvöllur fyrir fullnustu í náttúruauðlindum eða eigum íslenska ríkisins hér á landi
Einnig hefur verið vísað til ákvæðis um takmörkun friðhelgisréttinda. Íslenska ríkið nýtur að þjóðarétti friðhelgisréttinda í lögsögu annarra ríkja. Þessi friðhelgisréttindi stæðu í vegi fyrir lagalegri úrlausn deilumála vegna samningsins ef ekkert væri að gert. Það er föst venja í lánasamningum milli ríkja að víkja slíkum friðhelgisréttindum til hliðar. Slík ákvæði hafa eðli málsins samkvæmt eingöngu gildi þar sem friðhelgi er til staðar, þ.e. í lögsögu erlendra ríkja. Án slíks fráfalls væri ekki hægt að stefna máli, né reka það, fyrir umsömdum dómstóli. Ákvæði þetta hefur engin áhrif að innanlandsrétti. Það skapar því á engan hátt grundvöll fyrir aðför að eigum íslenska ríkisins hér á landi. Öll umræða um að með ákvæðinu hafi verið opnað fyrir aðför eða fullnustu í eigum íslenska ríkisins hér á landi er því úr lausu lofti gripin og enn langsóttara er að telja að ákvæðið skapi grundvöll fyrir aðför að íslenskum náttúruauðlindum. Um slíkar fræðilegar spurningar um fullnustu gagnvart íslenska ríkinu hér á landi fer einfaldlega eftir íslenskum fullnusturétti, óháð þessu ákvæði. Rétt er hér einnig að taka fram að gert er ráð fyrir sambærilegum ákvæðum í væntanlegum lánasamningum við Norðurlöndin.
Endurskoðunarákvæði vegna skuldastöðu Íslands
Rétt er að minna á að eignir Landsbanka Íslands standa undir stærstum hluta af skuldinni og að ábyrgð ríkissjóðs er eftirstæð. Öll rök standa til þess að ríkissjóður ráði vel við þessar skuldbindingar þó miklar séu. Hér verður hins vegar að vekja athygli á að í samningunum eru ákvæði um breyttar forsendur. Ef svo fer að Ísland eigi í erfiðleikum með að standa í skilum skapast forsendur skv. þeim ákvæðum fyrir því að samningarnir séu teknir upp og samið að nýju um lánakjör. Þar er miðað við mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á greiðsluþoli íslenska ríkisins frá því í nóvember sl. Versni það til muna skulu samningsaðilar hittast að kröfu Íslands til að ræða breytingar á samningunum til að bregðast við nýjum aðstæðum.
Í samræmi við framangreint verður í frumvarpi til laga um ríkisábyrgð fyrirvari annars vegar um greiðsluþol ríkisins og hins vegar um fullveldi ríkisins.
Spurt & svarað á vefnum www.island.is
Bent skal á að þegar hefur fjölda spurninga verið svarað á vefnum island.is. Fjármálaráðuneytið hvetur alla til þess að senda spurningar sem upp vakna á vefinn island.is. Reynt verður að svara öllum spurningum eftir föngum svo fljótt sem auðið verður.
Fjármálaráðuneytinu, 18. júní 2009