Hoppa yfir valmynd
19. júní 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markviss skref að jafnvægi í ríkisfjármálum

Fréttatilkynning nr. 38/2009

Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðir í ríkisfjármálum þar sem dregið er úr halla ríkissjóðs um 22,4 milljarða króna í ár og 63,4 milljarða króna á næsta ári. Í frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi í gær eru tekin markviss skref til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum á næstu fjórum árum. Meirihluti þessara 86 milljarða næst með niðurskurði útgjalda.

Lykilatriði í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar
Jafnvægi í ríkisfjármálum er afar mikilvægur þáttur í heildstæðri efnahagsáætlun stjórnvalda sem miðar að því að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og skapa forsendur fyrir stöðugleika gjaldmiðilsins, áframhaldandi lækkun vaxta í takt við minnkandi verðbólgu og afnámi gjaldeyrishafta í áföngum. Aðrir mikilvægir áfangar í efnahagsstefnu stjórnvalda munu nást á allra næstu vikum, þar má nefna samninga við nágrannaþjóðir um gjaldeyrislán, samninga við skilanefndir um mismun eigna og skulda Nýju bankanna og endurfjármögnun bankanna í kjölfarið og lok fyrstu endurskoðunar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS).

Hratt á að ganga á hallann
Samkvæmt þeirri áætlun sem unnið er eftir í ríkisfjármálum er stefnt að því að halli á ríkissjóði minnki hratt á komandi árum og að afgangur verði á rekstri ríkissjóðs á árinu 2013. Til að ná því markmiði verður alls staðar að herða að í rekstri ríkissjóðs. Ráðuneytum og stofnunum er gert að haga rekstri sínum í samræmi við fjárheimildir gildandi fjárlaga, að teknu tilliti til sparnaðarkröfu og hallarekstur frá fyrri árum þar sem það á við. Þrengdar verða verulega heimildir til að nota óráðstafaðar fjárheimildir fyrri ára. Brýn velferðarverkefni verða varin en leitað allra leiða til hagræðingar og sparnaðar innan velferðarþjónustu og annarrar grunnþjónustu með því að lækka rekstrarkostnað, launakostnað og tengdan kostnað s.s. ferðakostnað, aksturskostnað, nefndalaun og risnu.

Staðinn vörður um störf
Við útfærslu niðurskurðarins er sett þau markmið að verja störf og lægstu laun og tryggja launajafnrétti kynjanna. Leita skal leiða til að minnka yfirvinnu sem mest má og minnka starfshlutfall í stað uppsagna. Ennfremur skal starfsmönnum sem öðlast hafa full réttindi til töku lífeyris boðið upp á sveigjanleg starfslok. Forðast skal að ráða í störf sem losna hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins nema brýna nauðsyn beri til. Ekki skulu ráðnir utanaðkomandi ráðgjafar í verkefni hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins nema brýna nauðsyn beri til og sérfræðiþekking sé ekki til staðar meðal ríkisstarfsmanna.

Laun undir 400 þúsund varin
Fella skal launakjör forstjóra og æðstu yfirmanna fyrirtækja og stofnana, sem eru í eigu ríkisins undir kjararáð. Laun æðstu yfirmanna hjá ríkinu og fyrirtækjum og stofnunum þess verði ekki hærri en laun forsætisráðherra. Hjá þeim ríkisstarfsmönnum sem hafa heildarlaun umfram 400.000 krónur á mánuði skal í samráði við viðkomandi ráðuneyti og stofnanir yfirfara samsetningu heildarlauna og vinnufyrirkomulag með það að markmiði að laun þeirra sem mest bera úr býtum lækki hlutfallslega meira en þeirra sem lægri laun hafa. Við yfirferð af þessu tagi skal tekið tillit til þess niðurskurðar sem þegar hefur átt sér stað innan ráðuneyta og stofnana. Ítrasta aðhalds verður gætt í rekstri ríkisins, allir rekstrarþættir og innkaup endurmetin og gildandi samningar teknir til endurskoðunar. Allir samningar þ.m.t. samningar sem eru tengdir eru vísitölu eða gengi s.s. þjónustusamninga, húsaleigusamninga við ríkið verði endurmetnir með það að markmiði að ná fram sparnaði.

Sparnaður og aðhald
Hvarvetna á að gæta aðhalds í ríkisrekstri. Heildarkostnaður vegna nefnda, stjórna og ráða á vegum ríkisins lækki um 50%. Ferðakostnaður erlendis verði lækkaður um 30% á árinu 2009 og 50% á árinu 2010 samanborið við 2008. Allir samningar um akstursgreiðslur á vegum ríkisins verða endurskoðaðir. Dregið verður verulega úr kostnaði vegna sérfræðiþjónustu í ríkiskerfinu. Aukin áhersla verði lögð á skatteftirlit, með það að markmiði að draga verulega úr skattsvikum og skila ríkissjóði viðbótar skatttekjum að fjárhæð 2–3 milljarðar króna á ársgrundvelli. Framlög til stjórnmálaflokka verði lækkuð við heildarendurskoðun á öllum opinberum framlögum til stjórnmálasamtaka og þingflokka. Sambærilegar kröfur um sparnað verði gerðar til félaga og stofnana sem um lengri eða skemmri tíma hafa verið í eigu ríkisins.

Endurskipulagning stofnana
Þjónusta við almenning í héraði verði bætt og gerð markvissari með samhæfingu stjórnsýslustofnana um land allt, sem taki við verkefnum ýmissa ríkisstofnana. Kannað verður m.a. að hve miklu leyti megi flytja verkefni frá stjórnsýslustofnunum ríkisins til sveitarfélaga. Skipulag sýslumannsembætta verður endurskoðað og verkefni flutt til sveitarfélaga eftir því sem hagkvæmt er. Verkefni skattstofa verða endurskoðuð og verkefni flutt til Ríkisskattstjóraembættisins þar sem það er hagkvæmt. Skipulag utanríkisþjónustunnar verður endurskoðað, þ.m.t. staðsetning sendiráða og fjöldi útsendra starfsmanna og sendiráðsbústaðir seldir. Stofnanakerfi ríkisins verði tekið til endurskoðunar með það að markmiði að auka skilvirkni þeirra og draga úr rekstrarkostnaði. Einstaka stofnanir verða lagðar niður, stjórnsýslueiningum fækkað og stofnanir sameinaðar með það að markmiði að ná fram samlegð í rekstri.

Sjá samatekt um helstu atriði frumvarpsins til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Frumvarpið sjálft er á vef Alþingis.

Nánari upplýsingar eru á island.is

Fjármálaráðuneytinu, 19. júní



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta