Ráðstafanir í ríkisfjármálum á málefnasviðum félags- og tryggingamálaráðuneytisins
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja fyrir Alþingi frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum til að mæta yfirstandandi erfiðleikum í efnahagslífinu. Aðgerðir sem snúa að málefnasviðum félags- og tryggingamálaráðuneytisins fela meðal annars í sér breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um málefni aldraðra, lögum um Ábyrgðasjóð launa og lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Fyrirhugaðar aðgerðir munu draga úr útgjöldum ríkisins um 4 milljarða króna á ársgrundvelli. Þá mun hækkun gjalds í Ábyrgðasjóð launa skila ríkissjóði 800 milljónum króna í auknar tekjur.
Árið 2008 voru gerðar viðamiklar breytingar á greiðslum almannatrygginga sem færðu öldruðum og öryrkjum verulegar réttarbætur. Makatengingar voru afnumdar, bætur hækkaðar, frítekjumark vegna atvinnutekna var hækkað, sett var sérstakt frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur öryrkja á fjármagnstekjur og skerðingarhlutfall hjá ellilífeyrisþegum var lækkað. Þá hófst einnig vinna við endurskoðun almannatryggingakerfisins í því skyni að gera það einfaldara og gagnsærra en þó fyrst og fremst með bættan hag aldraða og öryrkja í huga.
Vegna erfiðra efnahagsaðstæðna er nú óhjákvæmilegt að stíga skref til baka. Áhersla er lögð á að hér er um tímabundnar ráðstafnir að ræða sem taka mið af ríkjandi efnahagsástandi. Þá verður áfram unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins og lögð áhersla á að draga sem kostur er úr neikvæðum afleiðingum þessara sparnaðaraðgerða. Tryggt verður áfram að lágmarksframfærslutrygging verji kjör tekjulægstu lífeyrisþega. Þá er mörkuð stefna um að ellilífeyrisþegar njóti í ríkari mæli tekna úr lífeyrissjóðum með því að tekið er upp sérstakt 10.000 króna frítekjumark í lífeyristekjur ellilífeyrisþega.
Kjör tekjulægstu lífeyrisþeganna verða varin
Við ákvarðanir um breytingar á greiðslum úr almannatryggingakerfinu hefur verið lögð rík áhersla á að verja kjör tekjulægstu lífeyrisþeganna. Því er staðinn vörður um lágmarksframfærslutryggingu lífeyrisþega sem ákveðin var á síðasta ári og nemur nú 180.000 krónum á mánuði hjá lífeyrisþegum sem búa einir en 153.500 krónum hjá lífeyrisþegum sem ekki njóta heimilisuppbótar.
Fyrirhugaðar breytingar á greiðslum úr almannatryggingakerfinu munu í engu skerða kjör þeirra sem einungis njóta lágmarksframfærslutryggingar. Aftur á móti hafa breytingarnar áhrif á greiðslur til lífeyrisþega sem njóta tekna úr lífeyrissjóðum eða af atvinnu til viðbótar greiðslum almannatrygginga. Þannig er gert ráð fyrir að bætur til þeirra lækki með vaxandi tekjum og falli alveg niður þegar heildartekjur ná tæpum fjórum milljónum króna á ári.
Eftirfarandi breytingar verða gerðar á lögum um almannatryggingar:
- Lækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar. Frítekjumark örorkulífeyrisþega helst óbreytt.
- Afnám heimildar til að velja á milli frítekjumarks og þess að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar.
Áætlaður sparnaður vegna aðgerða 1 og 2 nemur 275 milljónum króna á ársgrundvelli. - Lífeyrissjóðstekjur hafa áhrif á útreikning grunnlífeyris.
- Aldurstengd örorkuuppbót skerðist vegna tekna.
Áætlaður sparnaður vegna aðgerða 3 og 4 nemur 1.575 milljónum króna. - Skerðingarhlutfall tekjutryggingar hækkar úr 38,35% í 45%. Breytingin er tímabundin og gildir til 31. desember 2013.
Áætlaður sparnaður vegna þessarar aðgerðar nemur 2,5 milljörðum króna á ársgrundvelli - Sett verður 10.000 króna frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar.
Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkisins vegna þessarar aðgerðar aukast um 700 milljónir króna á ársgrundvelli.
- Nánar er fjallað áhrif einstakra breytinga í fylgiskjali (PDF).
Hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingar- og foreldraorlofi lækka
Með fyrirhuguðum breytingum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof verður hámarksgreiðsla til foreldra lækkuð úr 400.000 krónum í 350.000 krónur á mánuði. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðist við 80% af 437.500 króna meðaltalsmánaðartekjur í stað 500.000 króna áður. Greiðslur til foreldra sem hafa lægri mánaðartekjur en 437.500 krónur að meðaltali verða eftir sem áður 80% af meðaltali heildarlauna.
Gera má ráð fyrir að rúmlega 15% foreldra verði fyrir skerðingu vegna þessarar aðgerðar ef miðað er við reynslu fæðingarorlofskerfisins síðustu mánaða, þar af má áætla að rúmlega 30% karla verði fyrir skerðingu en innan við 10% kvenna. Þó ber að hafa í huga að laun hafa væntanlega þegar eitthvað lækkað og mun sú þróun að líkindum halda áfram. Aðgerðin mun því hafa meiri áhrif á rétt karla til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem hlutfall af tekjum þeirra en kvenna enda þótt meiri hluti þeirra sem taka fæðingarorlof verði ekki fyrir skerðingu.
Áætlaður sparnaður af þessari aðgerð er 350 milljónir króna á ársgrundvelli.
Ábyrgðasjóður launa
Ábyrgðagjald hækkað
Lagt er til að ábyrgðagjaldið sem ætlað er til að fjármagna Ábyrgðasjóð launa samkvæmt 23. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, verði hækkað úr 0,1% í 0,2% frá og með 1. júlí 2009. Eigið fé sjóðsins var uppurið í lok árs 2003 og hefur halli á rekstri sjóðsins verið nokkur undanfarin ár. Gjaldið var síðast hækkað 1. janúar 2006 en óhjákvæmlegt þykir að hækka gjaldið aftur vegna neikvæðrar stöðu sjóðsins.
Áætlað er að árleg tekjuaukning hjá sjóðnum verði um 800 milljónir króna á ársgrundvelli.
Vaxtagreiðslur á kröfur sem sjóðurinn ber ábyrgð á falla niður
Í því skyni að draga úr útgjöldum Ábyrgðasjóðs launa er lagt til að sjóðurinn greiði ekki vexti á þær kröfur sem sjóðurinn ber ábyrgð á samkvæmt a-d–liðum 5. gr. laganna. Þar er um að ræða kröfur launafólks um vinnulaun, bætur vegna launamissis og orlofslaun sem og kröfur lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld.
Þegar litið er til reynslu Ábyrgðasjóðs launa má gera ráð fyrir að þessi aðgerð hafi meiri áhrif á karla en konur en fleiri karlar en konur leita almennt til sjóðsins. Á árinu 2008 leituðu samtals 1.067 einstaklingar eftir ábyrgð sjóðsins, þar af voru 287 konur og 780 karlar.
- Fylgiskjal: Áhrif fyrirhugaðra breytinga á lögum um almannatrygginga, sbr. frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (PDF)