Hoppa yfir valmynd
22. júní 2009 Innviðaráðuneytið

Breyting á reglugerð um skoðun ökutækja til umsagnar

Drög að breytingu á reglugerð nr. 8/2009 um skoðun ökutækja er nú til umsagnar hjá samgönguráðuneytinu. Þeir sem óska geta sent ráðuneytinu umsagnir sínar í síðasta lagi 1. júlí næstkomandi.

Ný reglugerð um skoðun ökutækja nr. 8/2009 tók gildi í byrjun janúar á þessu ári. Óhætt er að fullyrða að breytt fyrirkomulag við skoðun ökutækja hafi í flestu reynst mikil framför. Til að bæta kerfið enn frekar á grundvelli þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd reglugerðarinnar eru eftirfarandi breytingar lagðar til á núgildandi reglugerð:

  • Gert er ráð fyrir að bæði fornbifhjól og fornbifreiðar verði færðar til aðalskoðunar annað hvert ár miðað við nýskráningarár (1. gr.).
  • Lagt er til að ákvæði um árlega skoðun ökutækja nái til ökutækja sem notuð eru til neyðaraksturs, svo sem lögreglubifreiða eins og áskilið var í eldri reglugerð (2. gr.).
  • Komið er til móts við þá sem lýst hafa óánægju með að fellt var út ákvæði í núgildandi reglugerð um að þeir sem búi í dreifbýli, þ.e. í meiri fjarlægð en 80 km frá næstu skoðunarstöð fái tvo aukamánuði til að færa ökutæki til skoðunar (3. gr.).
  • Í núgildandi reglugerð er ákvæði þess efnis að færa skuli fornbifreiðar, húsbifreiðar, hjólhýsi, bifhjól og tjaldvagna til skoðunar fyrir 1. ágúst á skoðunarári. Talið er heppilegra að miða við 1. júní en eigendur (umráðamenn) hafi síðan tveggja mánaða frest (til 1. ágúst) til að færa slík ökutæki til skoðunar. Eins og ákvæðið er núna hafa eigendur (umráðamenn) slíkra ökutækja frest til 1. október til að færa tækin til skoðunar sem þykir óheppilegri tími þar sem þá eru fæst þessara tækja enn í umferð (4. gr.).
  • Of óljóst þótti að að veita „tiltekinn” frest til að færa ökutæki til skoðunar eftir að skráningarmerki sem lögð hafa verið inn eru sett á þau að nýju. Lagt er til að gefinn verði viku frestur (5. gr.).
  • Felld er út 5. mgr. 17. gr. núgildandi reglugerðar en þar er fjallað um að notkun ökutækis sé óheimil þegar frestur til að færa ökutæki til skoðunar er liðinn.
  • Við framkvæmd núgildandi reglugerðar kom í ljós að hægt var að túlka ákvæði hennar þannig að við eigendaskipti væri mögulegt að greiða vanrækslugjald án þess að færa ökutækið jafnframt til skoðunar. Þar sem þetta er ekki í anda þeirra markmiða sem stefnt er að með reglugerðinni, þe. að fækka óskoðuðum ökutækjum í umferð er lagt til að farin verði sú leið að heimilt verði að greiða vanrækslugjald við eigendaskipti ökutækis án þess að skoðun fari fram, að því tilskildu að númer ökutækis séu samhliða lögð inn. Þetta ákvæði helgast meðal annars af því að stundum er ekki hægt að koma því við að skoða ökutæki við eigendaskipti, til dæmis þegar ökutæki eru seld í óökuhæfu ástandi, svo sem á uppboði. (7. gr.)
  • Ákvæði til bráðabirgða varðandi skoðunarár ökutækja í samræmi við nýskráningarár þeirra er endurskrifað til að gera það skýrara en er í núgildandi reglugerð, ekki síst varðandi tjaldvagna og hjólhýsi (fellihýsi).

Með þessum breytingum á reglugerð um skoðun ökutækja sem hér eru lagðar til má ætla að reglurnar verði enn markvissari en nú er sem ótvírætt mun skila sér í færri óskoðuðum ökutækjum í umferðinni og meira umferðaröryggi.

Ráðuneytið óskar umsagnar um þessi drög eins fljótt og verða má og í síðasta lagi fyrir 1. júlí nk. á netfangið [email protected]



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta