Hoppa yfir valmynd
22. júní 2009 Innviðaráðuneytið

Ríkisfjármálin rædd við forstöðumenn stofnana og hlutafélaga

Samgönguráðherra og fleiri fulltrúar samgönguráðuneytisins áttu í dag fund með forstöðumönnum stofnana og hlutafélaga ráðuneytisins vegna stöðunnar í ríkisfjármálum og tillagna um hagræðingu og sparnað.

Samgönguráðherra ræðir ríkisfjármál við forstöðumenn stofnana og hlutafélaga.
Samgönguráðherra ræðir ríkisfjármál við forstöðumenn stofnana og hlutafélaga.

Kristján L. Möller samgönguráðherra, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og fleiri fóru yfir helstu atriði í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar vegna samdráttar í ríkisfjármálum á þessu og næsta ári. Staða ríkisfjármála gerir auknar kröfur til ráðuneyta og stofnana um vandaðan undirbúning fjárlaga og góðar rekstraráætlanir. Ráðherra sagði að beita yrði miklum aga í ríkisfjármálum. Hann sagði allt til skoðunar, útgjöld sem tekjur og lagði hann áherslu á góða samvinnu milli ráðuneytis og stofnana og félaga.

Á fundinum var farið yfir svonefnd leiðarljós í ríkisfjármálum sem eru fjölmargar ábendingar og tilmæli um ýmsar aðgerðir sem grípa verður til í því skyni að mæta kröfum um niðurskurð. Samgönguráðuneytinu og stofnunum þess er gert að spara um 233 milljónir króna í rekstri á þessu ári og á næsta ári 10% í rekstrarkostnaði ráðuneytis og stofnana sem eru kringum 830 milljónir króna. Er þá ekki talinn með sá samdráttur sem ríkisstjórnin hefur ákveðið í vegaframkvæmdum, 3,5 milljarðar á þessu ári og rúmlega 8 milljarðar á því næsta.

Myndaður hefur verið vinnuhópur fulltrúa samgönguráðuneytisins og tengiliða í hverri stofnun og hlutafélagi til að undirbúa fjárlög næsta ársog leggja fram tillögur um hagræðingu og sparnað. Einnig á hópurinn að gera rekstraráætlanir og fylgja þeim eftir. Gert er ráð fyrir að á næstu þremur til fjórum vikum verði lagðar fram tillögur vegna undirbúnings fjárlaga næsta árs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta