Hoppa yfir valmynd
22. júní 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samvinna um framkvæmd náttúruverndaráætlunar

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
svandis_2009a

Á dögunum lagði ég fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009 – 2013. Markmið náttúruverndaráætlunarinnar er að halda áfram að byggja upp net verndarsvæða til þess að tryggja verndun tegunda, líffræðilegrar fjölbreytni, landslags og náttúru.

Í nýrri áætlun er lagt til að þrettán svæði verði friðlýst á tímabilinu og þar á meðal er gert ráð fyrir að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og friðun þess lokið sem fyrst. Lagt er til að mörk friðlandsins í Þjórsárverum verði færð út þannig að það nái yfir allt votlendi veranna. Þar með myndu bætast við nokkur rústamýrarsvæði sem eru utan friðlandsins og jafnframt yrðu friðlýsingarskilmálar þar styrktir og bann lagt við röskun innan svæðisins. Flest svæðanna eru friðlýst í því skyni að vernda sjaldgæfar plöntur og vaxtarstaði þeirra. Samkvæmt áætluninni verður eitt svæði friðað vegna jarðfræði, en það er Langisjór og nágrenni hans og verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Einnig er í áætluninni lögð áhersla á friðun svæða sem hafa að geyma sjaldgæfar plöntutegundir og tegundir í hættu. Lagt er til að 160 tegundir mosa, fléttna og háplantna verði friðlýstar, en það er mesta friðun tegunda sem ráðist hefur verið í hér á landi. Tegundir plantna hafa ekki verið friðlýstar síðan 1978. Í náttúruverndaráætluninni er lagt til að þrjár tegundir hryggleysingja verði friðaðar, en það yrði í fyrsta sinn sem dýrategundir yrðu friðaðar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Nú eru tegundir fugla og spendýra friðaðar allt árið eða hluta af árinu með lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Náttúran og tækifærin

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á eflingu náttúruverndar, að hún verði hafin til vegs og staða hennar innan stjórnarráðsins styrkt til muna. Náttúra Íslands er sérstök og yfirgnæfandi fjöldi erlendra ferðamanna sem til landsins kemur nefnir náttúruna sem helstu ástæðu heimsóknarinnar. Náttúran er samofin þjóðarvitundinni og vernd hennar er eins mikilvæg og verndun tungunnar og menningararfsins. Náttúruvernd snýst ekki aðeins um vernd heldur ekki síður um sjálfbæra nýtingu og þá fyrst of fremst í þágu útivistar og ferðaþjónustu. Iðulega er náttúruvernd stillt upp sem andstæðu hagvaxtar og atvinnusköpunar og vissulega setur hún slíku oftar en ekki skorður. Friðlýsingar takmarka athafnasemi og setja kvaðir á land og nýtingu þess. En náttúruvernd getur líka skapað atvinnu, auk þess sem vernd og sjálfbær nýting náttúrunnar er auðvitað undirstaða allrar okkar velferðar. Ferðaþjónusta er oft nefnd sem einn af lyklunum að endurreisn íslensks efnahags eftir bankahrunið – og kannski endurreisn á ímynd Íslands í leiðinni. Við þurfum að líta á skipulega náttúruvernd sem nauðsynlega forsendu ferðaþjónustu á Íslandi. Það má færa fyrir því rök að náttúruvernd sé grunnur að sjálfbærri nýtingu þess auðs sem felst í fegurð landsins og náttúrugersemum, eins og vísindaleg vöktun á fiskistofnunum er undirstaða sjálfbærs sjávarútvegs og beitarstjórnun og landgræðsla styður sjálfbæran landbúnað. Ég hef velt því fyrir mér hvort náttúruvernd sé ef til vill vanræktur þáttur í byggðastefnu. Við verjum verulegum fjármunum til styrkja í landbúnaði, sem flestir eru tengdir framleiðslu. Bændur og aðrir ábúendur í dreifbýlum sveitum mætti kalla eins konar vörslumenn landsins og sagnanna sem það hefur að geyma. Staðþekking og reynsla bænda er án nokkurs vafa auðlind sem mætti virkja betur í þágu verkefna á sviði náttúruverndar.

Stóraukið samráð

Sú gagnrýni hefur komið fram að framkvæmd fyrri náttúruverndaráætlunar frá 2004 – 2008 hafi gengið hægt og áætlunin hafi mætt nokkurri andstöðu meðal viðkomandi landeiganda. Hefur sú gagnrýni m.a. beinst að því að lítið samráð hafi verið haft við landeigendur um friðun landsvæða og þeir komið seint að friðlýsingarferlinu. Sem nýr ráðherra umhverfismála tek ég þessar ábendingar til mín og mun í starfi mínu leggja ríka áherslu á bætt samstarf við landeigendur, sveitarstjórnir og heimamenn þeirra landsvæða sem áætlunin tekur til. Þannig er það minn einlægi vilji að koma með mun skýrari hætti að samtölum við ábúendur um náttúruvernd og áætlanir um friðun landsvæða. Náttúruvernd er langtíma viðfangsefni sem er í eðli sínu lýðræðisverkefni sem sem kallar á þátttöku stjórnvalda, landeigenda, sveitarfélaga og almennings.

Svandís Svavarsdóttir,
umhverfisráðherra



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta