Eftirgjöf skulda - skattskylda eða skattfrelsi?
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. júní 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um eftirgjafir skulda og skattalega meðferð slíkra gjörninga, bæði vegna afleiðinga bankahrunsins og vaxandi greiðsluerfiðleika, jafnt hjá einstaklingum sem fyrirtækjum.
Þessar óvenjulegu aðstæður sem upp voru komnar leiddu í ljós að nauðsyn var á skýrari ákvæðum í tekjuskattslögunum varðandi skattalega meðferð eftirgefinna skulda.
Jafnframt hefur verið lögfest á Alþingi nýtt form nauðasamninga, þ.e. nauðasamninga með greiðsluaðlögun. Í ljósi þessa var samþykkt breyting á 3. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt þess efnis að í stað þess að einungis eignaauki sem stafaði af eftirgjöf skulda við formlega nauðasamninga teldist ekki til tekna heldur einnig eignaauki vegna eftirgjafar skulda við nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og sömuleiðis eignaauki vegna eftirgefinna skulda ef á annan fullnægjandi hátt væri sannað að eignir væru ekki til fyrir þeim, að uppfylltum tilteknum skilyrðum samkvæmt reglugerð sem fjármálaráðherra setur.
Nýverið gaf fjármálaráðherra út framangreinda reglugerð, nr. 534/2009, um skilyrði þess að eftirgjöf skulda manna utan atvinnurekstrar teljist ekki til skattskyldra tekna, í samræmi við breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. lög nr. 46/2009. Þau skilyrði eiga einungis við um tilvik þar sem ekki liggur fyrir formlegur nauðasamningur eða nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, því eftirgjöf skulda vegna slíkra nauðasamninga er aldrei skattskyld. Að gefnu tilefni skal tekið fram að lagaákvæðið og þar með reglugerðin tekur einungis til skulda einstaklinga sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eins og heiti reglugerðarinnar gefur til kynna. Að öðru leyti skiptir tilefni skuldar ekki máli.
Reglugerðin kveður á um að liggja þurfi fyrir með formlegum hætti að eignir séu ekki til fyrir skuldum. Ítrekaðar árangurslausar innheimtutilraunir, þar með talið árangurslaust fjárnám eða allar eignir skuldara eru metnar yfirveðsettar teljast fullnægjandi sönnun þess. Meginatriðið er að einstaklingur, og eftir atvikum maki hans, eigi engar eignir sem hægt er að ganga að til greiðslu skuldarinnar eða séu að öðru leyti ekki borgunarmenn fyrir skuldinni. Einhliða ákvörðun kröfuhafa er ekki nægilegt skilyrði fyrir niðurfellingu heldur þurfa að liggja fyrir gögn sem styðja þessa niðurstöðu og þarf skuldareigandi að gefa skattyfirvöldum upplýsingar um þær forsendur sem eftirgjöf skuldar er byggð á.