Hoppa yfir valmynd
25. júní 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp um Bankasýslu ríkisins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. júní 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í kjölfar þeirra áfalla sem urðu á fjármálamarkaði sl. haust er ríkið orðið eignaraðili í flestum stærstu fjármálafyrirtækjum landsins.

Miðað við mikilvægi fjármálastofnana í nútímahagkerfi þarf ríkið að leitast við að haga eigendaákvörðunum sínum þannig að ná megi fram eðlilegum viðskiptaháttum og virkri samkeppni á fjármálamarkaði þrátt fyrir að umrædd fjármálafyrirtæki séu að stórum hluta í sömu eigu. Fyrir liggur að endurskipulagning fjármálakerfisins verður krefjandi og því er mikilvægt að ríkið setji skilyrði fyrir framlagi sínu sem miði að því að byggja upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi og fylgist með árangri þess með markvissum hætti. Markmiðið er að tryggja trúverðugleika ríkisins sem faglegs eiganda fjármálafyrirtækja með því að stjórnvöld séu hafin yfir vafa um pólitísk afskipti af daglegum ákvörðunum fyrirtækjanna. Um leið þarf að hámarka nýtingu þeirra miklu fjármuna sem ríkissjóður kemur til með að leggja fjármálafyrirtækjunum til.

Fjármálaráðherra hefur nú sett fram frumvarp til laga þar sem sérstakri stofnun, Bankasýslu ríkisins, er falið að fara með eignarhluti ríkisins í fjámálafyrirtækjum meðan á uppbyggingu og endurreisn fjármálakerfisins stendur. Bankasýsla ríkisins lýtur sérstakri stjórn, fær rekstrarfé af fjárlögum og starfar á grundvelli þeirra laga sem um starfsemina gilda, laga um Bankasýslu og eigendastefnu ríkisins. Starfsmenn stofnunarinnar munu fara með eignarhluti ríkisins og atkvæðarétt á hluthafafundum en sitja ekki sjálfir í stjórnum fjármálafyrirtækja. Lagt er til að Bankasýsla ríkisins geri samninga við fjármálastofnanir sem ríkið á eignarhluti í um viðmið í rekstri, m.a. um arðsemi af eigin fé og almennar áherslur varðandi endurskipulagningu fjármálakerfisins. Þá mun stofnunin hafa eftirlit með því að settum markmiðum verði náð.

Fjármálastofnanirnar sem ríkið á eignarhluti í eiga að vera reknar á viðskiptalegum forsendum í samkeppni á ábyrgð bankastjórna, stjórna og stjórnenda eins og önnur félög og verða þessir aðilar látnir sæta ábyrgð á rekstrinum. Í frumvarpinu er þannig leitast við að takmarka það vald sem fjármálaráðherra hefur til þess að gefa stofnununum fyrirmæli og þannig tryggja að bankastjórnir, stjórnir og stjórnendur fjármálafyrirtækja verði ekki í beinum samskiptum við fjármálaráðuneytið eða ráðherra. Þannig mun sérstök valnefnd, skipuð af stjórn Bankasýslunnar, tilnefna á grundvelli hæfni einstaklinga til setu í stjórnum og bankaráðum fyrir hönd ríkisins en stjórnarmenn ekki valdir á pólitískum forsendum. Almenningi verður gert kleift að koma nöfnum sínum og ferilskrám á framfæri við nefndina og bjóða sig þannig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrir hönd ríkisins til þess að tryggja aukna breidd og þekkingu varðandi hæfni stjórnarmanna.

Þar sem ekki er ætlunin að festa í sessi eignarhald ríkisins í fjármálastofnunum heldur bregðast við stöðunni eins og hún er í dag er um tímabundið fyrirkomulag að ræða til fimm ára. Þannig er Bankasýslu ríkisins falið að undirbúa og vinna tillögur um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og gera tillögur til fjármálaráðherra um hvort og hvenær fýsilegt sé að bjóða tiltekna eignarhluti til sölu á almennum markaði. Þegar endurreisn fjármálakerfisins er lokið er gert ráð fyrir því að stofnunin verði lögð niður og umsýslu þeirra eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem eftir standa verði hagað með hefðbundnum hætti í gegnum skýra eigendastefnu og eftirlit fjármálaráðuneytisins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta