Hoppa yfir valmynd
25. júní 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tekjuþróun árið 2009

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. júní 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðuneytið vaktar reglulega gögn um staðgreiðslu einstaklinga, bæði vegna skatttekna ríkissjóðs og til að fylgjast sem best með almennri efnahagsþróun.

Tekið skal fram að þau gögn sem ráðuneytið hefur aðgang að eru ekki persónugreinanleg. Nú liggja fyrir marktæk gögn um fyrstu fjóra mánuði ársins í ár þannig að hægt sé að draga af þeim ályktanir.

Heildarfjöldi einstaklinga sem er að finna á staðgreiðsluskrám fyrstu fjögurra mánaða ársins í ár er tæplega 5% minni en á sama tímabili árið á undan. Áhrif samdráttar í efnahagslífinu eru flóknari en ætla mætti við að útskýra það þar sem atvinnulausir fá áfram tekjur í formi bóta frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá eru eldri gögnin orðin fullkomnari en hin nýrri.

Meðaltekjur eru 5,6% lægri í ár en á sama tíma í fyrra. Það stafar af minnkuðu vinnuframlagi eins og fjallað hefur verið um í ritinu Þjóðarbúskapurinn - vorskýrsla 2009.

Af staðgreiðslugögnunum má sjá að efnahagsáfallið hefur komið mjög mismunandi niður á kynjunum. Þannig hafa meðaltekjur karla lækkað um 6,2% milli ára meðan þær hafa hækkað um 8,2% hjá konum. Þetta á við um parað úrtak, þ.e. þann hóp sem upplýsingar eru um fyrir bæði tímabilin.

Tekjur hafa hækkað að meðaltali hjá þeim sem voru með mánaðarlaun undir 300 þúsund krónum fyrstu fjóra mánuði ársins 2008 en lækkað hjá þeim sem voru með tekjur þar fyrir ofan og því meira sem þær voru hærri. Um það bil fjórðungur launamanna er nú með innan við 90% af tekjum fyrra árs meðan þriðjungur hefur 10% meiri tekjur en þá og þaðan af meira.

Það eru fleiri skýringar en launahækkanir á hækkun þeirra sem voru með litlar tekjur árið 2008. Í þessum hópi eru til dæmis þeir sem þá stunduðu hlutastörf með námi en eru nú í fullri vinnu. Laun þeirra sem voru með yfir 1 m.kr. á mánuði árið 2008 hafa lækkað um 27% að meðaltali milli ára. Það skal tekið fram að inni í staðgreiðslugögnum eru ýmsar skattskyldar greiðslur sem ekki er víst að séu reglubundin laun, t.d. útgreiðsla séreignarsparnaðar á árinu 2009. Þetta hefur þó ekki mjög mikil áhrif á heildartölur.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta