Hoppa yfir valmynd
26. júní 2009 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um markaðsgreiningar - umsagnir óskast fyrir 15. júlí nk.

Drög að reglugerð um markaðsgreiningar voru kynnt til umsagnar í október á síðasta ári. Nú eru Þeir sem óska geta sent samgönguráðuneytinu umsögn sína um reglugerðina í síðasta lagi 15. júlí nk. uppfærð drög að reglugerðinni sem taka tillit til breytinga sem hafa orðið á evrópuregluverkinu kynnt til umsagnar.

 

Markmið með drögum að reglugerð um markaðsgreiningar er að auka gagnsæi við framkvæmd markaðsgreininga.

Reglugerðin fjallar um málsmeðferð og helstu viðmið sem byggja skuli á við skilgreiningu fjarskiptamarkaða, greiningu á þeim, ákvörðun um útnefningu fyrirtækis eða fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og ákvörðun um kvaðir samkvæmt ákvæðum, fjarskiptalaga nr. 81/2003.

Í 5. kafla fjarskiptalaga nr. 81/2003 getur að líta kafla sem ber yfirskriftina „Markaðir“. Þar er fjallað um hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) við að efla samkeppni á fjarskiptamörkuðum hér á landi. Þar er um svokallaðar „ex ante“ samkeppnisreglur að ræða, þ.e. PFS hefur það hlutverk að greina fjölmarga undirmarkaði fjarskiptamarkaðarins og leggja viðeigandi kvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Það hlutverk er t.d. ólíkt hlutverki Samkeppniseftirlitsins sem starfar fyrst og fremst eftir „ex post“ samkeppnisreglum, þ.e. refsa fyrirtækjum eftir á vegna samkeppnisbrota.

Ofangreindur kafli fjarskiptalaganna á rót sína að rekja til tilskipana ESB á sviði fjarskiptaréttar frá árinu 2002. Í 16. gr. laganna segir að PFS skuli skilgreina þjónustumarkaði og landfræðilega markaði í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum. Í 17. gr. er síðan fjallað um framkvæmd markaðsgreininga en þær skal einnig framkvæma í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum. Markaðsskilgreiningin er grundvöllur ákvörðunar um hvort PFS leggi kvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk (eða breyti þeim) eða felli þær kvaðir niður á félag sem hefur ekki lengur slíkan markaðsstyrk.  

Í 1. mgr. 18. gr. laganna er skilgreining á umtalsverðum markaðsstyrk. Fyrirtæki er í slíkri stöðu þegar það eitt sér eða með öðrum hefur þann efnahagslega styrkleika á ákveðnum markaði að geta hindrað virka samkeppni og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda. Í 2. mgr. greinarinnar er síðan kveðið á um yfirfærslu markaðsstyrks af einum markaði yfir á tengdan markað.
Lagastoð reglugerðar um markaðsgreiningar á sviði fjarskipta er að finna  í 3. mgr. 18. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, en þar er kveðið á um að samgönguráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari sundurliðun markaða skv. 16. gr., um greiningu á stöðu markaða og um mælikvarða sem nota skal við mat á því hvort fyrirtæki, eitt eða fleiri saman, hafi umtalsverðan markaðsstyrk.

Reglugerðardrögin byggja á ofangreindum lagaákvæðum, auk 75. gr. laganna sem hefur að geyma almenna reglugerðarheimild. Þá byggir hún á fjarskiptaréttartilskipunum ESB og leiðbeiningum og tilmælum um framkvæmd markaðsgreininga sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sett í samræmi við samskonar leiðbeiningar og tilmæli framkvæmdastjórnar ESB.

Drög að reglugerð um markaðsgreiningar eru því í raun í samræmi við lagaumhverfið eins og því er nú háttað, en með því að koma þessum umfangsmiklu tilskipunum, leiðbeiningum og tilmælum í reglugerðarform er ætlunin að auka gagnsæi. Með því móti er skýrður sá rammi sem Póst- og fjarskiptastofnun vinnur innan  við gerð markaðsgreininga og geta því þeir aðilar sem starfa á fjarskiptamarkaði jafnt sem ósérfróðir aðilar áttað sig betur á því regluumhverfi sem slíkar markaðsgreiningar byggjast á.

Óskað er eftir því að athugasemdir við reglugerðardrögin berist ráðuneytinu eigi síðar en 15. júlí nk. á netfangið [email protected].  

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta