Hoppa yfir valmynd
26. júní 2009 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra skipar í stöður seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra

Forsætisráðherra hefur skv. 1. mgr. 23. gr. laga um Seðlabanka Íslands skipað Má Guðmundsson í embætti Seðlabankastjóra til fimm ára frá og með 20. ágúst 2009 og Arnór Sighvatsson í embætti aðstoðarseðlabankastjóra til fjögurra ára frá og með 1. júlí 2009. Skipunartími aðstoðarseðlabankastjóra tekur mið af 1. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða með lögum nr. 26/2009.

Már Guðmundsson lauk BA prófi í hagfræði frá háskólanum í Essex auk þess sem hann stundaði nám í hagfræði og stærðfræði við Gautaborgarháskóla. Hann er með M-phil. gráðu í hagfræði frá háskólanum í Cambridge og stundaði þar doktorsnám. Már hefur frá árinu 2004 gegnt starfi aðstoðarframkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss. Hann starfaði áður í Seðlabanka Íslands í um tvo áratugi og þar af sem aðalhagfræðingur í rúm tíu ár. Már var efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra frá 1988- 1991. Már hefur ritað fjölda greina og ritgerða um peninga- og gengismál og skyld efni.

Arnór Sighvatsson lauk doktorsprófi í hagfræði frá Northern Illinois háskóla og hafði áður lokið BA í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og MA prófi í hagfræði frá North Illinois háskóla. Með námi starfaði Arnór við Hagstofu Íslands og kenndi við Northern Illinois háskólann ásamt doktorsnámi. Hann hóf störf í Seðlabanka Íslands árið 1990, var aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri hagfræðisviðs frá árinu 2004 og settur aðstoðarseðlabankastjóri árið 2009. Arnór var aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, skrifstofu Norðurlanda, frá 1993 – 1995. Arnór er höfundur margra greina um peningamál og gengismál.

Settur Seðlabankastjóri, Svein Harald Øygard, mun gegna því embætti uns Már Guðmundsson tekur við embættinu þann 20. ágúst næstkomandi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta