Skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009-2013
Fréttatilkynning nr. 42/2009
Fjármálaráðherra kynnti í dag fyrir Alþingi skýrslu um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013. Við hrun fjármálakerfisins í október sl. gjörbreyttust allar forsendur í íslensku efnahagslífi. Fjármál ríkisins voru sett í uppnám og fjárhag fjölda fyrirtækja og heimila var stefnt í voða. Hrunið hefur leitt til þess að tekjur ríkisins hafa dregist saman, útgjöld aukist og ríkissjóður er nú rekinn með meiri halla en nokkur dæmi eru um. Þá munu skuldir ríkisins stóraukast og vaxa enn á næstu tveimur árum. Óhjákvæmilegt var að bregðast við þessu ástandi með róttækum aðgerðum, setja skorður við frekari skuldaaukningu og ná jöfnuði í ríkisfjármálunum á nýjan leik innan ásættanlegra tímamarka.
Í áætlun ríkisstjórnarinnar eru dregin saman þau markmið í ríkisfjármálum sem íslensk stjórnvöld hafa einsett sér ná á komandi árum. Þessi markmið eru í samræmi við og byggð á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau miða að því að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum og þjóðarbúskapnum, og þar með að skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi. Áætlunin miðar að því að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og að afgangur verði á rekstri hans á árinu 2013.
Meginmarkmiðin í ríkisfjármálum
Meginmarkmið við stjórn ríkisfjármála við þær aðstæður sem skapast hafa eru þau a) að frumjöfnuður ríkissjóðs verði orðinn jákvæður á árinu 2011, b) að heildarjöfnuður ríkissjóðs verði orðinn jákvæður á árinu 2013 og c) að til lengri tíma litið verði skuldsetning ríkissjóðs ekki meiri en sem svarar til 60% af VLF.
Á grundvelli þessara meginmarkmiða hefur ríkisstjórnin gert áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum, sem marka stefnu hennar á næstu árum í tekjuöflun fyrir ríkissjóð og setur útgjöldum hans skorður. Til að ná þessum meginmarkmiðum er gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði:
-8,3% af vergri landsframleiðslu á árinu 2009
-3,0% af vergri landsframleiðslu á árinu 2010
1,8% af vergri landsframleiðslu á árinu 2011
5,1% af vergri landsframleiðslu á árinu 2012
7,2% af vergri landsframleiðslu á árinu 2013
Áhersla á samstöðu
Við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðarbúskapnum er ljóst að allir þurfa að leggjast á árar í því endurreisnarstarfi sem framundan er. Æskilegt er að víðtæk sátt og samstaða náist um markmið áætlunarinnar og þær leiðir sem farnar verða að þeim. Nýsamþykktur stöðuleikasáttmáli ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins skiptir auðvitað miklu máli í þessu sambandi.
Niðurskurður bitni sem minnst á heimilum og velferðarþjónustu
Það er ásetningur stjórnvalda að þær aðhaldsaðgerðir og niðurskurður útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Jafnframt að grunnþjónusta á borð við starfsemi skóla verði varin. Til að svo geti orðið ber brýna nauðsyn til þess að það fé sem varið er til verkefna og þjónustu hins opinbera verði nýtt svo vel sem kostur er.
- Skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 (PDF 808 KB) frá 26. júní 2009
- Fylgiskjal um eignir og skuldir ríkissjóðs (PDF 66 KB)
Fjármálaráðuneytinu, 26. júní 2009