Staða mála í starfi nefndar um starfsemi vistheimila
Nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 var upphaflega skipuð af forsætisráðherra með erindisbréfi, dags. 2. apríl 2007. Nefndina skipa Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, formaður, Dr. Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðusálfræðingur á Landspítalanum, Dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og Dr. Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Framkvæmdastjóri nefndarinnar er Þuríður B. Sigurjónsdóttir lögfræðingur.
Samkvæmt erindisbréfi, dags. 2. apríl 2007, var nefndinni í fyrstu falið að kanna starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur á árunum 1950-1980. Skýrsla um þá könnun er dagsett 31. janúar 2008. Hún var afhent forsætisráðherra sem lagði hana fram á Alþingi. Skýrslan var rædd á þingfundi 31. mars 2008.
Með erindisbréfi forsætisráðherra, dags. 11. apríl 2008, var kveðið um framhald á störfum nefndarinnar. Var henni falið að taka með almennum hætti afstöðu til þess hvaða stofnanir féllu undir gildissvið laga nr. 26/2007 og afmarka nánar, ef ástæða þætti til, það tímabil sem nefndin beindi almennt sjónum sínum að, m.a. í ljósi gildandi barnaverndarlöggjafar á hverjum tíma. Þá bar nefndinni að leggja mat á hvort og þá hvaða stofnanir skyldi kanna sérstaklega með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum nr. 26/2007. Við slíkt mat skyldi nefndin hafa til hliðsjónar hvort tilefni væri til könnunar í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga, t.d. í formi frumgagna eða frásagna, sem fram hefðu komið frá fyrrverandi vistmönnum, starfsmönnum eða öðrum. Eins bæri nefndinni að líta til þess hversu líklegt væri að könnun þjónaði tilgangi sínum, m.a. vegna þess hversu langt væri um liðið.
Lagt var til grundvallar að nefndin skildi stefna að því að skila áfangaskýrslum um könnunina til forsætisráðherra fyrir 1. júlí 2009 (áfangaskýrsla nr. 1) og 1. júlí 2010 (áfangaskýrsla nr. 2). Nefndin skyldi síðan ljúka störfum sínum og skila lokaskýrslu um könnun sína til forsætisráðherra eigi síðar en 15. apríl 2011. Samkvæmt erindisbréfinu ákveður nefndin hvort fjallað verði um einstakar stofnanir sameiginlega eða hverja um sig og þá hvort umfjöllun komi fram í áfangaskýrslum eða í heildarskýrslu nefndarinnar við lok starfa hennar.
Á fundi nefndarinnar 29. apríl 2008 var tekin sú ákvörðun að neðangreindar stofnanir skyldu í fyrstu sæta könnun nefndarinnar samkvæmt lögum nr. 26/2007:
- Vistheimilið Kumbaravogur
- Heyrnleysingjaskólinn
- Stúlknaheimilið Bjarg
- Vistheimilið Reykjahlið
- Heimavistarskólinn Jaðar
- Upptökuheimili ríkisins
- Unglingaheimili ríkisins
- Vistheimilið Silungapollur
Í kjölfar ákvörðunar nefndarinnar á fundi hennar 29. apríl 2008 var hafist handa við að afla skjallegra gagna frá stjórnvöldum. Í júnímánuði 2008 hafði töluvert af skjallegum gögnum borist um starfsemi fyrrgreindra stofnana ásamt upplýsingum um magn þeirra gagna sem til væru og hversu langan tíma tæki að afhenda þau nefndinni. Þá hafði nefndinni einnig borist upplýsingar um mögulegan fjölda þeirra einstaklinga sem dvöldu á hverri stofnun fyrir sig.
Á þeim grundvelli var ákveðið að vistheimilið Kumbaravogur, Heyrnleysingjaskólinn, stúlknaheimilið Bjarg, vistheimilið Reykjahlíð og heimavistarskólinn Jaðar myndu í fyrstu sæta könnun nefndarinnar og að stefnt yrði að því að niðurstöður yrðu birtar í áfangaskýrslu nr. 1. Jafnframt var tekin sú ákvörðun að könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls, Upptökuheimilis ríkisins og Unglingaheimilis ríkisins myndi bíða um sinn og stefnt yrði að því að niðurstöður yrðu birtar í áfangaskýrslu nr. 2.
Könnun nefndarinnar undanfarin misseri hefur verið afar umfangsmikil. Hefur nefndin þegar rætt við 170 einstaklinga, fyrrverandi vistmenn, fyrrverandi nemendur og aðra sem nefndin hefur talið geta varpað ljósi á starfsemi þeirra stofnana sem nefndin hefur nú tekið til könnunar. Að sama skapi hefur gagnaöflun nefndarinnar verið umfangsmikil. Könnun nefndarinnar á starfsemi vistheimilisins Kumbaravogs, stúlknaheimilisins Bjargs og Heyrnleysingjaskólans er nú á lokastigi. Þá er könnun nefndarinnar á vistheimilinu Reykjahlíð og heimavistarskólanum Jaðri komin vel á veg.
Nefndinni hafa nú nýlega borist upplýsingar um 25-30 fyrrverandi vistmenn á vistheimilinu Reykjahlíð og 50-60 fyrrverandi nemendur heimavistarskólans Jaðars til viðbótar við þá einstaklinga sem nefndinni var kunnugt um að höfðu dvalið á þeim stofnunum. Á fundi nefndinnar 3. júní s.l. var í ljósi nýrra upplýsinga, tekin sú ákvörðun að frestað yrði að birta niðurstöður könnunar á vistheimilinu Reykjahlíð og heimavistarskólanum Jaðar. Telur nefndin að veita verði fyrrgreindum einstaklingum kost á að koma til viðtals við nefndina og greina henni frá reynslu sinni af dvölinni. Hefur nefndin ákveðið að niðurstöður könnunar á starfsemi vistheimilisins Reykjahlíðar og heimavistarskólans Jaðars verði birtar í áfangaskýrslu nr. 2.
Eins og að ofan greinir er könnun nefndarinnar á starfsemi vistheimilisins að Kumbaravogi, stúlknaheimilisins Bjargs og Heyrnleysingjaskólans á lokastigi og verða niðurstöður nefndarinnar um þessar þrjár stofnanir birtar í áfangaskýrslu nr. 1. Hefur nefndin nú þegar rætt við 94 einstaklinga og borist mikið magn skjallegra gagna og úrvinnsla þeirra verið tímafrek. Þá bíður nefndin eftir greinargerðum og álitsgerðum sérfræðinga sem hún hefur leitað til varðandi tiltekna þætti. Verður unnið að lokafrágangi áfangaskýrslu nr. 1 í júlí og ágúst með það í huga að skila henni til forsætisráðherra eigi síðar en 1. september nk. Hefur nefndin haft um þetta samráð við forsætisráðherra.
Allar nánari upplýsingar veitir Róbert R. Spanó, formaður nefndarinnar.