Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sameiginleg fréttatilkynning frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noreg og Svíþjóð um norræn lán til Íslands

Fréttatilkynning nr. 43/2009

Í dag var skrifað undir lánasamninga milli Íslands og Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar og milli Seðlabanka Íslands, með ábyrgð íslenska ríkisins, og Noregsbanka, með ábyrgð norska ríkisins. Samkvæmt þessum samningum munu Norðurlöndin fjögur veita Íslandi lán sem samanlagt nema 1,775 milljörðum evra.

Lánin eru veitt í tengslum við og til þess að styðja áætlun Íslendinga í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) sem hefur það að markmiði að koma á stöðugleika og umbótum í íslenskum efnahagsmálum. Lánunum er ætlað að efla gjaldeyrisvarasjóð Íslands. Þessi lán frá norrænu lánveitendunum fjórum, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, eru jafnframt mikilvægt framlag þeirra í viðleitni alþjóðasamfélagsins til þess að sigrast á alþjóðafjármálakreppunni.

Frá því forsætisráðherrar Norðurlanda ákváðu í lok október 2008 að skipa norrænan starfshóp Íslandi til stuðnings hafa Norðurlöndin átt náið samstarf um þetta viðfangsefni og fagna því nú að náðst hefur samkomulag um öll atriði samninganna. Lánin sem eru til 12 ára leggja Íslandi til mikilvæga fjármögnun til langs tíma og sýna um leið samstöðu lánveitenda með Íslendingum og staðfastan langtímastuðning þeirra við Ísland í þeirri erfiðu stöðu í efnahags- og fjármálum sem nú er við að glíma.

Lánsféð verður ekki borgað út um leið og samningarnir hafa verið undirritaðir. Lánin verða borguð út í fjórum jöfnum hlutagreiðslum sem eru tengdar fjórum fyrstu endurskoðunum á efnahagsáætlun Íslands með AGS, og er hver greiðsla háð því að viðkomandi endurskoðun hafi verið samþykkt. Ísland hefur skuldbundið sig til þess að framkvæma þá stöðugleika- og umbótaáætlun í efnahagsmálum sem samið hefur verið um við AGS. Í þessu sambandi eru samningar Íslendinga við Breta og Hollendinga um uppgjör skuldbindinga Íslands vegna Icesave-málsins mikilvægur áfangi.

Framundan eru ákvarðanir í einstökum atriðum um áætlanir Íslendinga um aðgerðir til þess að koma á jafnvægi í fjármálum hins opinbera og um aðgerðir til þess að endurskipuleggja bankakerfið á sanngjarnan hátt, en þetta tvennt er mikilvægt fyrir framgang efnahagsáætlunarinnar. Í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda og AGS er nú unnið að undirbúningi frekari aðgerða á þessum sviðum sem nauðsynlegt er að verði ákveðnar áður en fyrsta endurskoðun efnahagsáætlunar Íslendinga með AGS fer fram, og fyrsti hluti norrænu lánanna verður borgaður út.

Nánari upplýsingar veitir Jón Sigurðsson í síma 861-1704, netfang: [email protected]

Fjármálaráðuneytinu, 1. júlí 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta