Tekjustofnar sveitarfélaga endurskoðaðir
Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur skipað nefnd til að vinna tillögu um að breikka og styrkja tekjustofna sveitarfélaga.
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um skipan tekjustofnanefndar sem hafi það hlutverk að vinna tillögu um að breikka og styrkja tekjustofna sveitarfélaga. Með vísan til þess hefur samgönguráðherra nú skipað slíka nefnd. Nefndin er skipuð einum fulltrúa samgönguráðherra, einum fulltrúa fjármálaráðherra, þremur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk fulltrúa allra þingflokka sem starfa á Alþingi.
Verkefni nefndarinnar er að yfirfara lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, með hliðsjón af ofangreindum markmiðum ríkisstjórnarinnar. Verkefni nefndarinnar er ennfremur að undirbúa nauðsynlegar breytingar á lögunum í tengslum við breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga árið 2011.
Í nefndinni eiga sæti:
Gunnar Svavarsson, fulltrúi samgönguráðherra, en hann er jafnframt formaður nefndarinnar
Sigurður Guðmundsson, fulltrúi fjármálaráðherra
Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs
Birna Lárusdóttir, fulltrúi þingflokks Sjálfstæðisflokksins
Ragnheiður Hergeirsdóttir, fulltrúi þingflokks Samfylkingarinnar
Petrína Baldursdóttir, fulltrúi þingflokks Framsóknarflokksins
Þór Saari, fulltrúi þingflokks Borgarahreyfingarinnar
Elín Líndal, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
Lúðvík Geirsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
Sigrún Björk Jakobsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
Með nefndinni starfa einnig sérfræðingar frá samgönguráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.