Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruskiptin í júní 2009

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 2. júlí 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar nam innflutningur vöru 32 ma.kr. (fob) í júní sem er eilítið meiri innflutningur en í maímánuði þegar hann nam 31,3 ma.kr.

Útflutningur vöru nam 40,8 ma.kr. og eykst á milli mánaða en hann nam 38,7 ma.kr. í maí. Afgangur á vöruskiptunum við útlönd er 8,8 ma.kr. í júní og 33 ma.kr. það sem af er ári. Á fyrri hluta sl. árs var aftur á móti halli á vöruskiptum við útlönd sem nam 24,4 ma.kr.

Staðvitur vöruinnflutningur án skipa og flugvéla jan. 2004 - júní 2009

Það sem helst skýrir aukinn innflutning í júní eru hrá- og rekstrarvörur, en innflutningur á þeim vörum er sveiflukenndur á milli mánaða. Einnig er nokkur aukning á innflutningi fólksbifreiða miðað við undanfarna mánuði sem er tilhneiging á þessum árstíma þótt innflutningur bifreiða sé mun minni í júní í ár en í sama mánuði á undanförnum árum. Einnig er aukning í innflutningi á mat- og drykkjarvöru en þessi liður er óteyginn til skamms tíma og dregst því lítið saman að magni til þótt verð hækki á meðan tekjur hafa staðnað. Þá skýrir lækkun á gengi krónunnar aukningu innflutningsverðmætisins á undanförnum mánuðum.

Líkt og í maí er verðmæti útfluttra sjávarafurða með besta móti í júní. Lágt gengi krónunnar kemur sér vel fyrir sjávarútveginn og vegur upp mikla verðlækkun íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt það sem af er ári. Annar útflutningur og þar á meðal útflutningur áls er óbreyttur frá því í maímánuði.

Á fyrri hluta ársins 2009 hefur vöruútflutningur dregist meira saman að magni til en miðað var við í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem birt var 12. maí sl., m.a. vegna meiri samdráttar í útflutningi sjávarafurða. Á móti kemur að vöruinnflutningurinn hefur dregist meira saman en ætlað var og á það við um hvort tveggja almennan og sérstakan vöruinnflutning. Samanlagt má nú gera ráð fyrir að afgangurinn á vöruskiptunum í ár verði meiri en spáð var í vorspánni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta