Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skipulegt átak hafið gegn svikum á vinnumarkaði

Félags- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra hafa ákveðið að auka verulega samstarf Ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnunar til þess að sporna gegn svikum á atvinnuleysisbótum og svokallaðri svartri vinnu sem ætla má að fram fari í einhverjum mæli sem stendur.

Aðgerðum stofnananna er ætlað að skapa almennt aðhald á vinnumarkaði, hafa áhrif til varnaðar á fólk og fyrirtæki ásamt því að finna þá sem brotið hafa af sér. Til þess að ná þessum markmiðum verður beitt margvíslegum aðferðum og eru þessar helstar:

  • Sameiginlegar heimsóknir á vinnustaði þar sem grunur leikur á að verið sé að brjóta lög um atvinnuleysistryggingar eða ástunda skattsvik.
  • Kynnningarherferð til að vekja athygli almennings á málefninu.
  • Leiðir opnaðar til þess að koma ábendingum á framfæri til stofnananna.
  • Aukin fræðsla um atvinnuleysisbætur og skilyrði fyrir úthlutun þeirra.
  • Stóraukið samstarf Ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnunar í daglegum störfum.
  • Hvor stofnun um sig mun tilkynna hinni um brotlega aðila.
  • Reglulegir samráðsfundir verða haldnir á næstu mánuðum.
  • Stofnanirnar munu veita hvor annarri aðgang að þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru og heimilt er lögum samkvæmt að afhenda, að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða.

Fjármálaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra hafa að auki sammælst um að hugað verði að endurskoðun laga sem stofnanirnar starfa eftir í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af auknu samstarfi. Sérstaklega verði þá hugað að því að einfalda ferla, bæta verklag og styrkja lagaheimildir.

Ráðherrarnir leggja mikla áherslu á þetta verkefni, enda er með svikum af þessu tagi vegið að sameiginlegu velferðarkerfi landsmanna sem greitt er af skattgreiðendum. Ekki er hægt að líða á samdráttar- og niðurskurðartímum sem þessum að fólk þiggi bætur og sinni launuðum störfum á sama tíma og verður allt kapp lagt á að uppræta slíka háttsemi. Vert er að minna á að misnotkun á bótarétti og undandráttur tekna kann að varða refsingu og sviptingu réttinda.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta