Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ákvörðun ESA vegna eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur

Fréttatilkynning nr. 45/2009

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í dag frá sér ákvörðun í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á fyrirkomulagi eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Að mati ESA er hin ótakmarkaða ábyrgð sem Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur njóta, hjá eigendum fyrirtækjanna, ekki að fullu í samræmi við ákvæði EES samningsins um ríkisaðstoð. Hins vegar lítur ESA svo á að heimilt sé að veita ábyrgð vegna lána viðkomandi fyrirtækja, að því gefnu að greitt sé hæfilegt ábyrgðargjald fyrir. Í dag greiða fyrirtækin 0,25% ábyrgðagjald af lánum sínum í samræmi við lög um ríkisábyrgðir.


Ákvörðun ESA frá í dag er í formi tilmæla („appropriate measures“) til íslenskra stjórnvalda um að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að fyrirkomulag eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur verði í samræmi við skuldbindingar Íslands að EES samningnum. Áður hafði ESA beint samskonar tilmælum til norskra stjórnvalda vegna sambærilegra mála.


Ríkisstjórnin hefur ákveðið að bregðast við ákvörðun ESA með eftirfarandi hætti:

1. Á komandi haustþingi verða lögð fram frumvörp til laga sem koma til móts við athugasemdir ESA við núverandi fyrirkomulag. Um er að ræða frumvörp til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og laga um ríkisábyrgðir, þar sem tryggt er að ábyrgðin nái eingöngu til lána fyrirtækjanna og að fyrir hana sé greitt hæfilegt ábyrgðargjald.

2. Fenginn verður óháður aðili til að meta hvað telst vera hæfilegt ábyrgðargjald vegna þeirra ábyrgða sem eru á lánum Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur.


Markmið þessara fyrirhuguðu lagabreytinga er að takmarka ábyrgðir eigendanna við lán fyrirtækjanna. Með því er tryggt að ábyrgð á núgildandi sem og framtíðar lánaskuldbindingum fyrirtækjanna verður óbreytt. Úttekt hins óháða aðila mun síðan leiða í ljós hvort þörf er á að breyta ábyrgðargjaldi fyrirtækjanna vegna lánanna. Með þessum breytingum er að fullu komið til móts við athugasemdir ESA og tryggt að fyrirkomulag eigendaábyrgðanna sé í samræmi við skuldbindingar Íslands að EES samningnum. Jafnframt er tryggt að þessar aðgerðir hafi lágmarksáhrif á Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur.

Fjármálaráðuneytinu, 8. júlí 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta