Nr. 26/2009 - Ákvörðun um leyfilegan hámarksafla fiskveiðiárið 2009/2010
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í dag tekið ákvörðun um leyfilegan heildarafla á næsta fiskveiðiári, 2009/2010.
Á meðfylgjandi töflu kemur fram hver leyfilegur hámarksafli í einstökum fisktegundum verður á komandi fiskveiðiári, skv. reglugerð sem gefin verður út. Þá sést til samanburðar tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir komandi fiskveiðiár. Þar má sjá að ekki verður um að ræða verulegar breytingar á leyfilegum heildarafla einstakra tegunda frá tillögum Hafrannsóknarstofnunarinnar. Þorskaflinn verður í samræmi við tillögur stofnunarinnar eða 150 þúsund tonn en það skal þó tiltekið hér að ekki er gert ráð fyrir strandveiðum á næsta ári í þeirri tölu. Heildaraflamark þorsks byggir á nýtingarstefnu sem felur í sér aflareglu í samræmi við bréf ráðuneytisins til Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) frá því fyrr í sumar. Er hér gert ráð fyrir að á fiskveiðiárinu 2009/2010 muni leyfilegur þorskafli miðast við 20% afla úr viðmiðunarstofni, en þó þannig að tekið er tilliti til aflamarks undangengis árs(sveiflujöfnun). Meginmarkmið nýtingarstefnunnar er að tryggja sjálfbærar þorskveiðar á komandi árum. Það er mat ráðuneytisins að beiting nýtingarstefnu eins og hér er kynnt muni þegar fram í sækir gefa góðar líkur á að auka megi þorskveiðar Íslendinga verulega.
Hvað aðrar tegundir áhrærir eru breytingar nokkrar. Aflamark í ýsu og ufsa lækkar milli ára, en þó ekki jafn mikið og Hafrannsóknastofnunin leggur til.
Í kjölfar óvenju góðrar nýliðunar um nokkurra ára skeið um síðustu aldamót óx ýsustofninn hratt og náði óvenjulegri stærð. Þessu fylgdu góð aflabrögð, aukning aflamarks og mikill afli. Undanfarin ár hefur nýliðun verið nær meðallagi og stofninn fer nú minnkandi. Þrátt fyrir þetta er ýsustofninn, bæði veiðistofn og hrygningarstofn, talinn stór um þessar mundir. Hafrannsóknastofnunin leggur til verulega lægra aflamark ýsu á næsta fiskveiðári, eða 57 þúsund tonn, en aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs er 93 þúsund tonn. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar felur í sér varfærni. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, telur það sjónarmið rétt að sýna beri varfærni við nýtingu ýsustofnsins og hefur því ákveðið lækka aflamarkið í 63 þúsund tonn og víkja þannig lítið frá ráðgjöf Hafrannóknastofnunarinnar. Jafnframt hefur ráðherra ákveðið að á árinu verði unnið skipulega að því, í samstarfi við vísindamenn og hagsmunaaðila, að móta viðurkennda nýtingarstefnu sem tryggir sjálfbærar ýsuveiðar til lengri tíma litið og einnig endurskoða reglur um möskvastærð og lokun svæða.
Varðandi ákvörðun heildar aflamarks í ufsa leggur Hafrannsóknastofnunin til 37 þúsund tonn en aflamark á yfistandandi fiskveiði ári er 65 þúsund tonn. Ákvörðun ráðherra er 50 þúsund tonn. Grundvöllur ákvörðunar ráðherra byggir á að mikil óvissa sé í stofnmati, mismunur er m.a. á mati sjómanna og fiskifræðinga á stærð stofnsins og aldursdreifingu/stærðardreifingu. Þá eru gögn um ungfisk ófullkomin þar sem seiðin halda sig á grunnsævi og koma illa fram við seiðarannsóknir. Einnig ríkir nokkur óvissa um göngur ufsans sem er flökkufiskur. Almennt má segja að enda þótt nauðsynlegt sé að sýna varkárni eru miklar og snöggar sveiflur í afla óæskilegar frá ýmsum sjónarhornum séð.
Þá er aflamark sett hærra en tillögur Hafrannsóknastofnunar gera ráð fyrir karfa, steinbít, skrápaflúru, skarkola,sandkola, keilu, löngu, þykkvalúru og langlúru og er það mat ráðherra þrátt fyrir það sé varlega farið með hliðsjón af því sem vitað er um þesa stofna. Breytingin er þó í flestum tilvikum lítil og engin frá yfirstandandi ári.
Þrátt fyrir tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar um verulega lækkun aflmarks í grálúðu er það ákveðið 12 þúsund tonn en það er þó 20% lækkun frá 15 þúsund tonna aflamarki yfirstandandi fiskveiðiárs. Er skýringin sú að þrjár þjóðir koma að nýtingu grálúðustofnsins, Íslendingar, Grænlendingar og Færeyingar. Ekki hefur náðst samkomulag um veiðar á grálúðu á milli þjóðanna og því ljóst að veruleg einhliða lækkun grálúðúkvótans af okkar hálfu hefði einvörðungu þær afleiðingar að aflaheimildar okkar minnkuðu en aðrar þjóðir gætu aukið sinn hlut eða í það minnsta veitt það sama.
Varðandi skötusel skal það tiltekið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason hefur ákveðið aflahámark er svarar til 2.500 tonna sem er í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar. Ráðherra tekur þó fram að hann hefur í hyggju að skoða aðrar leiðir til viðbótar varðandi fiskveiðistjórn í skötusel. Veruleg breyting hefur orðið á útbreiðslu skötusels hér við land á þessum áratug. Veiðslóðin var í áratugi aðallega við mið- og austurhluta suðurstrandarinnar og á þeim grunni var upphafs aflahlutdeild úthlutað. Nú hefur þessi veiðislóð í vaxandi mæli færst á Vesturmið og jafnvel norður. Þetta hefur jafnframt þýtt að skötuselur hefur í vaxandi mæli komið fram sem meðafli við grásleppuveiðar á grunnsævi í Breiðafirði og Ísafjarðardjúpi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, mun vegna þessa leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða á haustþingi þar sem á þessum atriðum og fleirum verður tekið með almennum hætti. Jafnframt hefur ráðherra í hyggju að setja reglugerð um umgengni við þennan stofn þar sem að tekið verður fyrir fjöldi neta á bát, vitjunartími neta og fleira því skylt.
Veiðar á úthafsrækju hafa ekki verið miklar undanfarin ár sé miðað við áratugina þar á undan. Veiðin 2007/2008 var eingöngu 1.394 tonn þótt heildaraflamark hafi verið ákveðið 7.000 tonn. Á yfirstandandi fiskveiðiári eru þó bendingar um að þessi veiði sé að aukast. Þrátt fyrir litla veiði undanfarin ár hefur ráðherra ákveðið að aflamark í úthafsrækju verði 7.000 tonn. Jafnframt hefur ráðherra ákveðið að beita sér fyrir lagabreytingu í þá veru að auka veiðiskyldu og takmarka flutningsrétt aflamarks í úthafsrækju á milli fiskveiðiára og milli fiskiskipa, einkum með tilliti til þess að flutningur milli skipa verði ekki notaður til að auka framsalsrétt í öðrum tegundum frá þeim skipum sem aflamarkið er flutt til.
Eins og kunnungt er hefur sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason sett á stofn breiðan vinnuhóp í því skyni að freista þess að ná sátt um stjórn fiskveiða. Þessum starfshópi er ætlað að kynna niðurstöðu sína fyrir 1. nóvember á þessu ári. Þrátt fyrir þetta og með vísan til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um brýn verkefni mun ráðherra leggja fram frumvörp til breytinga á lögum er varða m.a. stjórn fiskveiða sem telja verður til brýnna aðgerða eða gera aðrar breytingar sem hann telur sig hafa færi á innan núverandi heimilda. Atriði sem rétt er að nefna í þessu sambandi eru m.a.:
1. Skoða frekari takmörkun á framsali á aflaheimilda og tegundatilfærslur án þess aðsveigjanleiki kerfisins skerðist verulega.
2. Skoða aukningu á veiðiskyldu og það að takmarka tilfærslur á heimildum milli ára.
3. Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með þeim aðgerðum sem tiltækar eru.
4. Skoða mögulegar aðgerðir til verndunar grunnslóð. Kannaðir verði möguleikar þess m.a.að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði.
5. Framkvæma skoðun á markaði með aflaheimildir og taka afstöðu til hvort rétt sé að koma við frekari stjórnun á þeim markaði.
Tafla
Ákvörðun um leyfilegan heildarafla fiskveiðiárið 1. september 2009 til 31. ágúst 2010:
Tegund |
Aflamark 2008/2009 |
Ráðgjöf Hafrannsókna-stofnunarinnar |
Ákvörðun ráðherra |
---|---|---|---|
Þorskur |
162.500 |
150.000 |
150.000 |
Karfi |
50.000 |
40.000 |
50.000 |
Ýsa |
93.000 |
57.000 |
63.000 |
Ufsi |
65.000 |
35.000 |
50.000 |
Grálúða |
15.000 |
5.000 |
12.000 |
Steinbítur |
13.000 |
10.000 |
12.000 |
Skrápflúra |
1.000 |
200 |
1.000 |
Skarkoli |
6.500 |
5.000 |
6.500 |
Sandkoli |
1.000 |
500 |
1.000 |
Keila |
5.500 |
5.000 |
5.500 |
Langa |
7.000 |
6.000 |
7.000 |
Þykkvalúra |
2.200 |
1.800 |
2.200 |
Skötuselur |
3.000 |
2.500 |
2.500 |
Langlúra |
2.200 |
1.600 |
2.200 |
Úthafsrækja |
7.000 |
7.000 |
7.000 |
Humar |
2.200 |
2.200 |
2.200 |