Atvinnulausum fækkar í júní
Skráð atvinnuleysi í júní 2009 var 8,1% eða að meðaltali 14.091 manns og minnkar atvinnuleysi um 3,5% að meðaltali frá maí eða um 504 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1,1%, eða 1.842 manns. Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.
Vegna árstíðasveiflu eykst áætlað vinnuafl í 174.500 manns í júní eða um rúm 6.700 sem hefur áhrif á reiknað atvinnuleysishlutfall til lækkunar. Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 12,1% en minnst á Vestfjörðum 1,8%.
Atvinnuleysi eykst um 4,6% meðal kvenna en minnkar um 8,1% meðal karla. Atvinnuleysið er 8,6% meðal karla og 7,4% meðal kvenna. Langtímaatvinnuleysi hefur aukist og þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 5.624 í lok júní en 4.836 í lok maí og eru nú um 36% allra á atvinnuleysisskrá. Samtals voru 2.583 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok júní í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru íreglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í júní.
Nánari upplýsingar má finna á vef Vinnumálastofnunar.