Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2009 Forsætisráðuneytið

Samkomulag um birtingu upplýsinga um framlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra

Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn hafa ásamt Borgarahreyfingunni undirritað samkomulag um að Ríkisendurskoðun verði falið, með sérstakri lagaheimild, að veita viðtöku og birta upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra sem og önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200.000 kr. eða meira á árunum 2002 til 2006 að báðum árum meðtöldum, eða til þess tíma þegar lög nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra tóku gildi. Miðast þetta tímabil við geymsluskyldu bókhaldsgagna skv. lögum nr. 145/1994 um bókhald.

Með yfirlýsingunni skuldbinda framangreind stjórnmálasamtök sig, að lagaheimild fenginni, til að veita Ríkisendurskoðun samkvæmt bestu vitneskju allar fyrirliggjandi upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra á umræddu tímabili, auk upplýsinga um önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200.000 kr. eða meira.

Með yfirlýsingunni lýsa framangreind stjórnmálasamtök jafnframt vilja sínum til þess að Ríkisendurskoðun verði, með sérstakri lagaheimild, veitt heimild til að veita viðtöku og birta upplýsingar um framlög til einstakra frambjóðenda vegna forvala eða prófkjara innan stjórnmálasamtaka fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar á tímabilinu frá 1. janúar 2005 – 31. maí 2007, eða til þess tíma er lög nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, tóku gildi enda fari slík úrvinnsla og birting upplýsinga fram með fullu samþykki og þátttöku viðkomandi frambjóðanda. Loks lýsa aðilar vilja sínum til þess að Ríkisendurskoðun verði með lögum veitt sams konar heimild til að taka við og birta upplýsingar um framlög til einstakra frambjóðenda vegna kosninga til æðstu embætta innan stjórnmálasamtaka á árunum 2005 til 2009 að báðum árunum meðtöldum. Fái Ríkisendurskoðun slíka lagaheimild skora stjórnmálasamtökin á frambjóðendur sína að veita stofnuninni allar fyrirliggjandi upplýsingar um framlög til þeirra á umræddu tímabili.

Samkvæmt yfirlýsingunni er lagt til að Ríkisendurskoðun verði falið að taka við framangreindum upplýsingum og birta þær á þann veg sem hér segir:

  • Heildarfjárhæð árlegra framlaga.
  • Heildarfjárhæð árlegra framlaga frá einstaklingum.
  • Heildarfjárhæð árlegra framlaga frá lögaðilum.
  • Tilgreina skal sérstaklega þá aðila sem veitt hafa framlag að fjárhæð 500.000 kr. eða meira. Hafi lögaðili krafist trúnaðar um framlög sín til viðkomandi stjórnmálasamtaka skal engu að síður birta upplýsingar um fjárhæð framlagsins en upplýsingar um heiti viðkomandi aðila skulu ekki birtar án samþykkis hans. Sé um einstakling að ræða skal birting á nafni hans sem styrkveitanda ávallt byggjast á samþykki hans.

Samkvæmt yfirlýsingunni er miðað við að upplýsingar hafi borist Ríkisendurskoðun fyrir 15. nóvember 2009 og að stofnunin birti niðurstöður sínar fyrir lok ársins.

Viljayfirlýsingin var unnin á vettvangi nefndar um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálasamtaka og um upplýsingaskyldu þeirra sem forsætisráðherra skipaði 15. maí sl. Nefndin er skipuð fulltrúum allra stjórnmálasamtaka sem átt hafa fulltrúa á Alþingi á umræddu tímabili auk fulltrúa Borgarahreyfingarinnar og undirrita þeir viljayfirlýsinguna í umboði stjórnmálasamtaka sinna.

Í samræmi við viljayfirlýsinguna hafa formenn Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og formaður þingflokks Borgarahreyfingarinnar lagt fram sameiginlega á Alþingi frumvarp til laga þar sem lagt er til að Ríkisendurskoðun verði veitt lagaheimild til framangreindrar úttektar.

Reykjavík 16. júlí 2009

 

Meðfylgjandi er slóð á frumvarpið og viljayfirlýsing stjórnmálaflokkanna á pdf. formi

Viljayfirlýsing stjórnmálaflokkanna



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta